Stjórnvöld í Rússlandi virðast hæstánægð með hótanir Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að leggja refsitolla á ríki sem ekki styðja viðleitni hans til að lima Grænland inn í Bandaríkin. Kíríll Dmítríjev, einn helsti samningamaður Kremlar, sagði á laugardaginn að rígurinn milli Bandaríkjanna og Evrópu vegna Grænlands markaði endalok bandalagsins þeirra á milli. Dmítríjev hæddist að Evrópuríkjunum sem hafa sent hermenn til Grænlands vegna hótana Trumps og ráðlagði þeim að „ögra pabba ekki“. Hann sagði tollana sem Trump hefur boðað nema um það bil einu prósenti fyrir hvern hermann sem hefði verið sendur. Trump segir tollana eiga að nema 10% en hækka upp í 25% í júní og haldast þannig þar til fallist hefur verið á að selja Bandaríkjunum Grænland. Dmítríjev spáði því þó að Evrópuríkin myndu lúffa fyrir Trump og afhenda honum Grænland til að varðveita bandalagið. Dmítríj Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands, sagði orðræðu Trumps sýna fram á klofning innan Atlantshafsbandalagsins. „Bandaríkin eru að búa sig undir að gera árás á Grænland og velja eyjuna sjálfa fremar en einhverja Atlantshafssamstöðu,“ sagði hann. Medvedev sagði Evrópuríkin súpa seyðið af því að hafa reitt sig á vernd Bandaríkjanna og hvatti Trump til að leggja Grænland undir sig sem fyrst. Trump hefur ítrekað vísað til þess að ef Bandaríkin taki ekki yfir Grænland komi Rússland til með að gera það. Þar með séu yfirráð Bandaríkjanna á Grænlandi nauðsynleg til að tryggja þjóðaröryggi.