Vilja framleiða magnesíum úr sjó á Grundartanga

Njörður Holding vill reisa 50.000 tonna magnesíumverksmiðju á Grundartanga. Nýja verksmiðjan myndi nota 90 mW af orku og þar yrði eina magnesíumframleiðslan í Evrópu. Í áformaðri magnesíumverksmiðju Njarðar Holding í Hvalfirði stendur til að framleiða magnesíum úr sjó. Klór myndast í framleiðsluferlinu og verður nýttur sem hliðarafurð. Matsáætlun til umhverfismats var birt í Skipulagsgátt í morgun og næstu fjórar vikur gefst almenningi færi á að gera athugasemdir. Rúmur rúmmetri af sjó á sekúndu Verksmiðjan á að nýta 40 milljónir rúmmetra af sjó á ári, sem samsvarar 1,25 rúmmetrum af sjó á sekúndu. Vatnið verður tekið á 30 m dýpi í um hálfs til eins kílómetra fjarlægð frá landi, sem er utan grunnsævis. Í matsáætluninni kemur fram að magnesíum sé hvergi framleitt í Evrópu enda orkufrekur iðnaður. Megnið af heimsframboði á magnesíum kemur frá Kína þar sem kolum er brennt við framleiðsluna. Megnið af magnesíum heimsins framleitt með kolum í Kína Verksmiðjan í Hvalfirði mun þurfa 90 mw af afli. Til stendur að 75 MW komi frá dreifikerfi Landsnets og 15 MW úr glatvarma frá Elkem. 90 MW samsvarar árlegri framleiðslu Vatnsfellsvirkjunar í Þjórsá. Nýja verksmiðjan yrði líka eina klórframleiðslan á Íslandi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í september 2027 og að fullur rekstur geti hafist árið 2029. Margt í bígerð Magnesíumframleiðslan bætist í hóp fjölda áforma um uppbyggingu iðnaðar í Hvalfirði. Til að mynda stendur til að ráðast í laxeldi á landi, ammoníakframleiðslu, skemmtiferðaskipahöfn og reisa hótel með náttúruböðum.