Segja samkomulag Ingu og Ragnars Þórs byggja á hæpnum forsendum

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks furða sig á að Inga Sæland hafi hrifsað til sín uppbyggingu hjúkrunarheimila og efast um að slíkt standist lög. Forsætisráðherra segir það vissulega óvenjulegt en að mestu skipti að árangur náist í málaflokknum. Tilkynnt var um helgina að samkomulag hafi náðst milli Ragnars Þórs Ingólfssonar, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Ingu Sæland, mennta- og barnamálaráðherra, um að sú síðarnefnda farið með málefni uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða fyrir eldra fólk. Ábyrgðin á málaflokknum muni eftir sem áður liggja hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu. Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi að þessi ráðstöfun kalli á margar spurningar og spurði forsætisráðherra út í lögmæti þessa gjörnings. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra viðurkenndi að þessi skipting væri óvenjuleg. Þetta væri hins vegar samkomulag ráðherra Flokks fólksins um að Inga myndi fylgja þessu verkefni eftir. „Þetta snýst fyrst og fremst um þessa yfirsýn og það er búið að liggja yfir þessu í ráðuneytinu hjá mér [...] Ég hef sagt fyrir mína parta að auðvitað er þetta óvenjulegt fyrirkomulag en það er líka óvenjulegt að það takist að hrinda í framkvæmd og koma af stað 460 nýjum hjúkrunarrýmum á einu ári. Það er bara ýmislegt óvenjulegt sem hefur verið gert í þessari ríkisstjórn en kannski er það það sem þurfti til. Ég held að aðalmálið hljóti að vera árangurinn sem við skilum af okkur í þessum málaflokki,“ sagði Kristrún. Vill halda áfram að klippa á borða Sigríður var síður en svo sannfærð um svör Kristrúnar og sagði það fordæmalaust að ráðuneytis séu slitin í sundur með þessum hætti. „Í mínum bókum, eftir að hafa skoðað þetta, finn ég þess ekki nokkur dæmi að þessi framkvæmd hafi verið viðhöfð, ekki nokkurt einasta dæmi.“ Ólafur Adolfsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, reri á sömu mið og sagðist ekki sjá nein rök fyrir þessari ráðstöfun, önnur en þau að Inga Sæland vilji láta mynda sig að klippa á borða við opnun hjúkrunarheimila. Fannst honum svör forsætisráðherra rýr í roðinu. „Ég held að hún haldi að hún sé þjálfari knattspyrnuliðs og geti bara valið þá leikmenn sem henni dettur í hug að tefla fram á völlinn.“