Eigandi ferðaskrifstofu segist hafa fengið fjölda fyrirspurna um pakkaferð á Evrópumótið í handbolta eftir að íslenska landsliðið tryggði sig áfram í milliriðil. Hægt væri að fylla í aðra stóra hópferð til viðbótar við þá fimmtíu sem eru úti á þeirra vegum. Íslendingar almennt lengi að taka við sér Íslenska karlalandsliðið í handbolta er komið í milliriðil á Evrópumótinu sem haldið er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Milliriðillinn hefst á föstudag í Malmö. Liðið á þó eftir einn leik í F-riðli, sem leikinn er í Kristianstad, og mæta Ungverjum annað kvöld. Þúsundir íslenskra stuðningsmanna eru í Svíþjóð og eru fleiri á leiðinni. Opnað hefur verið fyrir sölu miða á leiki í milliriðli og sendi Handboltasamband Íslands frá sér tilkynningu í gærkvöld og hvatti íslenska stuðningsmenn til að hafa snör handtök vilji þeir verða sér úti um miða. Júlíus Geir Guðmundsson, eigandi ferðaskrifstofunnar TA Sport Travel, segir að 50 manna hópur á þeirra vegum hafi haldið út til Svíþjóðar í síðustu viku. Ferðaskrifstofan hefur haldið utan um slíkar hópferðir síðastliðin ár og segir Júlíus Geir Íslendinga almennt vera lengi að taka við sér þegar ferðirnar fara í sölu. Hópferð á EM hafi verið sett í sölu í ágúst, en það hafi ekki verið fyrr en í byrjun desember þegar hún hafi farið af stað að fullu. „Svo núna í byrjun janúar var orðin rosalega mikil eftirspurn, kannski á bilinu fimmtíu til áttatíu manns. En það var svolítið seint í rassinn gripið fyrir okkur að skipuleggja fyrir það margt fólk á svo skömmum tíma.“ Mikil ásókn frá því í gær „Það er búin að vera stanslaus eftirspurn um hvað við séum að hugsa varðandi að búa til ferð á milliriðilinn. Við erum ekki komnir með endanlegt útlit á ferð, en erum að vinna að þessu núna og erum að fá svör með verð á flugi og hóteli og annað. Þannig að við ættum að geta verið tilbúnir með einhverja pakka í fyrramálið,“ segir Júlíus Geir. Þá sé einnig talsvert af fyrirspurnum frá fólki sem hefur þegar pantað sér flug. „En þau áttu eftir að koma sér yfir til Malmö eða Kristianstad. Þannig að við höfum fengið líka töluverðar fyrirspurnir varðandi að fólk geti verið samferða fram og til baka á leikdegi, og til og frá flugvelli,“ segir Júlíus Geir, og heldur áfram. „Það gleymist oft í hamaganginum, það er pantað flug og hótel en það gleymist hvernig á að koma sér fram og til baka.“ Spurður um fjölda þeirra sem komist í næstu ferð og á milliriðilinn segir Júlíus að verið sé að horfa til 30-40 manns. Þeir verði þó á tánum skyldi íslenska landsliðið komast upp úr milliriðli. „Þetta þarf að vinna saman, hótel og flug og ef það er hægt að gera þetta á sómasamlegu verði erum við klárir.“