Strætómálið: „Við höfum ekki fengið neitt mat á því hvort þetta ógni einhverju þjóðaröryggi“

„Við erum núna að vinna áhættumat á þessum þætti okkar. Svona öryggis og áhættumat eins og við gerum svona almennt þegar við tökum til dæmis tölvukerfi í notkun,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Í haust var talsverð umræða um það á hinum Norðurlöndunum og hér á landi að kínverskir framleiðendur strætisvagna sem keyptir hafa verið í stórum stíl til þessara landa gætu fjarstýrt vögnunum frá Kína í gegnum tölvukerfi. Í þessari umræðu var meðal annars rætt um mögulegar njósnir og þjóðaröryggi. Áhyggjur af slíkum pólitískum afskiptum kínverska ríkisins á Vesturlöndum í gegnum kínversk fyrirtæki hafa verið talsverðar.  Umræðan snerist meðal annars um strætisvagna frá kínverska fyrirtækinu Yutong en Strætó á 15 slíka vagna. Jóhannes Svavar segir um afleiðingar umræðunnar um strætisvagnanna. „Við höfum ekki fengið neitt mat á því hvort þetta ógni einhverju þjóðaröryggi eða ekki. Við höfum alveg vitneskju um það að á hinum Norðurlöndunum þá held ég að menn hafi ekki metið þetta sem gríðarlegar þjóðaröryggisógn.“ Fjallað er um þessa strætisvagna og umræðuna um mögulega öryggisógn af þeim í fréttaskýringaþættinum Þetta helst í dag. Ástæðan fyrir umfjölluninni nú er meðal annars sú að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þingmaður hefur lagt fram fyrirspurn til innviðaráðherra á Alþingi um þessar strætisvagna. Þáttinn má hlusta á hér: Þingkona Sjálfstæðisflokksins hefur spurt um öryggisógnir af kínverskum strætisvögnum. Framkvæmdastjóri Strætó segir vagnana ekki vera öryggisógn en undirstrikar að mikilvægt sé að vera á varðbergi í samningum sem snúast um tölvutækni. Í fyrirspurninni spyr Þórdís Kolbrún um fjölda strætisvagna sem eru í notkun hjá Strætó og eins um það með hvaða hætti stjórnvöld á Íslandi hefðu brugðist við þessum fréttum um að hægt væri að stýra strætisvögnunum frá Kína. Þar segir Þórdís Kolbrún: „Hafa stjórnvöld farið að dæmi stjórnvalda í nágrannaríkjum og brugðist við fregnum af þeim eiginleika nefndra strætisvagna að framleiðandi geti haft áhrif á virkni einstakra vagna með rafrænum hætti? Ef svo er, hvernig hafa stjórnvöld brugðist við? Ef svo er ekki, hvers vegna ekki?“ Alþjóðastjórnmálafræðingurinn Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir segir um strætisvagnamálið. „Ég hef aðeins fylgst með þessari umræðu. Það eitt og sér að lama strætisvagna væri eflaust ekki stórvægilegt. Ég held að það sem verið er að ræða um hérna sé það að ef það væri notað ásamt öðrum tækjum til að lama samfélagið, til dæmis ef þetta væri gert á sama tíma og það væru tölvuárásir á landið eða klippt á undirsjávarkapla. [...] Það er ekki búist við beinum hernaðarátökum við Kína. Hins vegar eru aðrir þættir sem við ættum að skoða, til dæmis áróðursstarfsemi eða fjölþáttaógnir. Auðvitað hafa kínversk skip klippt á neðansjávarkapla og það er mjög alvarlegt,“ segir Guðbjörg. Umræðan um kínversku strætisvagnana er ekki á enda þar sem innviðaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, á eftir að svara fyrirspurn Þórdísar Kolbrúnar á þingi.