Rúmen Radev forseti Búlgaríu tilkynnti á mánudag að hann hygðist segja af sér. Hann tilkynnti þetta í aðdraganda þingkosninga sem verða haldnar í vor, þeim áttundu frá árinu 2026. „Baráttan fyrir framtíð heimalands okkar er fram undan og ég tel að við munum takast á við hana með ykkur öllum — hinum verðugu, hinum innblásnu og hinum ósveigjanlegu!“ sagði Radev í tilkynningu um afsögn sína. „Við erum reiðubúin. Við getum náð okkar fram og það munum við gera!“ Undanfarið hafa verið vangaveltur um að Radev kunni að stofna sinn eigin stjórnmálaflokk og bjóða fram á þing í næstu þingkosningum. Þar sem Búlgaría er þingræðisríki gæti Radev þannig farið með beinni völd en sem forseti. Vegna mikils pólitísks óstöðugleika síðustu árin hefur Radev ítrekað þurft að skipa utanþingsstjórnir, nú síðast þegar Rosen Zjeljazkov forsætisráðherra sagði af sér í kjölfar fjöldamótmæla gegn spillingu í desember. „Við erum nú þegar aðilar að Schengen og evrusamstarfinu,“ sagði Radev. „Spurningarnar hér eru: Hví náðist ekki stöðugleiki og sátt þegar þessum markmiðum var náð? Hví hættu Búlgarar að kjósa, hví reiða þeir sig ekki á réttarkerfið og treysta ekki fjölmiðlunum, hví fjölmenntu borgarar á torgin tvisvar, hví upplifir hátt hlutfall fólk sig fátækt í evrópskri Búlgaríu og enn fleiri lifa við óöryggi?“ Kjörtímabili Radev í forsetaembætti hefði lokið í ár og forsetakosningar verða haldnar í haust. Varaforseti Búlgaríu, Ílíjana Jotova, gegnir forsetaembættinu þangað til.