Orðið sviptivindar er best til þess fallið að lýsa fyrsta ári Trumps í embætti á þessu kjörtímabili, að mati Silju Báru Ómarsdóttur, prófessors við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og sérfræðings í bandarískum stjórnmálum. „Hann kemur inn af miklum krafti og miklu offorsi í mörgum málum og maður hélt að óreiðan sem einkenndi að mörgu leyti fyrra tímabilið, að hún yrði minni en ef eitthvað er þá held ég jafnvel að hún sé meiri á þessu fyrsta ári á þessu seinna tímabilinu, heldur en hún var.“ Ár er í dag síðan Trump hóf annað kjörtímabil sitt sem forseti Bandaríkjanna og það hefur ekki verið lognmolla í Hvíta húsinu síðan. Silja Bára segir að hraðinn hafi komið á óvart. Að undanförnu hafi hótanir um að taka yfir Grænland skyggt á umræðu um ýmislegt annað. Mikill hraði og óreiða hafa einkennt síðustu 12 mánuði í Hvíta húsinu, segir sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum. Ár er síðan Trump tók aftur við embætti. Repúblikanaflokkurinn breyttur Repúblikanaflokkurinn hefur breyst eftir að Trump tók aftur við embætti forseta, segir Silja Bára. Komið hafi fram kröfur um samtengingu í málum sem áður hefði mátt telja víst að Repúblikanaflokkurinn myndi beita sér gegn, til dæmis sú krafa að háskólar gefi upp upplýsingar um umsækjendur svo hægt sé að tengja þær við kannanir á því hvort verið sé að taka inn fólk úr minnihlutahópum í hærra hlutfalli en úr öðrum hópum. „Það er verið að nota þetta til að ráðast gegn þessum jafnréttisstefnum sem skólarnir hafa verið að nota.“ Þá sé verið að tengja saman gagnagrunna með upplýsingum um búsetu fólks, skattheimtu og kosningaþátttöku. Þetta sé tengt saman til að koma á skilvirkari stefnu um brottvísun innflytjenda. Jafnvel innflytjendur sem dvelji löglega í landinu eigi á hættu að verða vísað á brott. Slíkt komi á óvart í samfélagi sem byggi á innflytjendum. „Þannig að það er ýmislegt sem manni bregður við.“ Nánustu samherjar vilja ganga jafnvel lengra en Trump Þetta kjörtímabil Trumps er nokkuð frábrugðið því fyrra, segir Silja Bára. Á því fyrra hafi flokksmenn Repúblikanaflokksins talið að þeir gætu haft stjórn á Trump. Það hafi verið stór hópur stjórnmálamanna sem tók sæti í ríkisstjórninni og lagði sig fram um að stilla af mestu frávikin og brestina. „Þeir eru ekki til staðar lengur þannig að fólkið sem er þarna núna er tilbúið til þess að ganga jafn langt og jafnvel lengra en Trump, þannig að það er eitthvað sem er breytt milli þessara tímabila.“ Þá hafi Demókrötum ekki orðið mikið ágengt við að veita Trump mótvægi. Silja Bára segir hæstarétt Bandaríkjanna of pólitískan og að þingið hafi ekki staðið uppi í hárinu á Trump. „Jafnvel þegar hann er að ganga lengra og er að taka til dæmis fjárlagavaldið að einhverju leyti af þinginu sem var óheyrt.“ Að sama skapi velji þeir Repúblikanar sem gangi ekki í takt við Trump að fara. Silja Bára nefnir Marjorie Taylor Greene sem var einn af helstu stuðningsmönnum Trumps. „Þegar hún fær nóg þá bara fer hún.“ Ekki sé hægt að vera í flokknum og vera andsnúinn Trump. Lengri útgáfa af viðtali við Silju Báru er í spilara hér ofar í fréttinni.