Breiðablik er komið í Sambandsdeildina

Breiðablik vann Virtus frá San Marínó í umspili Sambandsdeildar karla í fótbolta, samtals 5-2, og er því komið í deildarkeppnina. Blikar unnu heimaleikinn 2-1 fyrir viku síðan og útileikinn í kvöld 3-1. Kristófer Ingi Kristinsson kom Breiðabliki yfir á 17. mínútu en á þeirri 41. jafnaði Abdoul Aziz Niang. Einungis mínútu síðar fékk Matteo Zenoni að líta sitt annað gula spjald og Blikar því manni fleiri allan seinni hálfleikinn. Von heimamanna varð lítil eftir að Davíð Ingvarsson skoraði á 58. mínútu og enn minni eftir mark Tobias Thomsen á 77. mínútu. Nýtt fyrirkomulag miðað við síðast Breiðablik komst einnig í Sambandsdeildina fyrir tveimur árum en þá var keppt í riðlum þar sem Blikar töpuðu öllum sex leikjum sínum. Nú er hins vegar deildarfyrirkomulag þar sem 36 lið eru öll í sömu deild og hvert lið spilar við sex mismunandi lið, þrjá heimaleiki og þrjá á útivelli. Víkingur var í þessari deildarkeppni í fyrra og endaði í 19. sæti. Það dugði til að komast í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar en þar tapaði liðið fyrir Panathinaikos frá Grikklandi, samtals 3-2. Breiðablik kemst að því hverjir mótherjarnir verða á morgun þegar drátturinn fer fram. Fyrsti leikdagur er 2. október og spilað verður í deildarkeppninni til 18. desember.