Um 850 Írakar yfirgáfu í dag Al-Hol flóttamannabúðirnar í norðausturhluta Sýrlands. Þar er vistað fólk sem grunað er um tengsl við hryðjuverkamenn Íslamska ríkisins. Jihan Hanan, stjórnandi búðanna, segir að það sem af er ári hafi um tíu þúsund Írakar farið úr búðunum í ellefu hópum. Tugþúsundir eru í flóttamannabúðum í Sýrlandi, allir með meint eða möguleg tengsl við hryðjuverkasamtökin, meira en sex árum eftir að sigur vannst á þeim í Sýrlandi. Al-Hol-búðirnar eru þær stærstu og vistmenn búa þar við þröngan kost. Hanan segir að í Al-Hol séu nú um það bil 27 þúsund manns, þar á meðal um 15 þúsund Sýrlendingar, um fimm þúsund Írakar og um sex þúsund og þrjú hundruð konur og börn af fjörutíu og tveimur þjóðernum. Stjórnvöld á Vesturlöndum hafa verið treg til að taka við sínum ríkisborgurum sem fóru til Sýrlands til að ganga til liðs við Íslamska ríkið. Stjórnvöld í Írak hafa hins vegar ákveðið að hraða móttöku flóttamanna úr búðunum í Sýrlandi og hvatt önnur ríki til að fylgja fordæmi þeirra.