Fjöldi farþega sem sigla með Herjólfi til og frá Vestmannaeyjum hefur aldrei verið meiri en í sumar. Ólafur Jóhann Borgþórsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir öflugt markaðsstarf og blíðskaparveður helstu ástæðurnar fyrir fjölguninni. „Það var náttúrulega mjög gott veðrið bara strax í apríl og það var metfjöldi í skipið í apríl, maí og júní. Júlí hefur bara einu sinni verið stærri þannig að við getum ekki annað en brosað, við sem erum í ferðaþjónustunni í Vestmannaeyjum.“ 10,3% aukning á milli ára Farþegar sem sigldu með Herjólfi í apríl, maí, júní og júlí á þessu ári voru 240.745 en í fyrra voru þeir 218.197 á sama tímabili. Fjölgunin er því 10,3% á milli ára. Ferðum yfir háannatímabilið í sumar, frá júlí og fram í ágúst, var fjölgað um eina. „Þá siglum við í rauninni átta ferðir á milli lands og eyja og það hefur hjálpað okkur til að geta annað eftirspurninni.“ Og hvað heldurðu að skýri þessa aukningu á farþegafjölda? „Ég held það sé einkum tvennt. Ferðamálasamtök Vestmannaeyja hafa verið mjög öflug við að markaðssetja eyjarnar bæði fyrir Íslendinga og ekki síður útlendinga þannig að eyjarnar eru mjög sýnilegar á samfélagsmiðlum. Svo vitum við það líka, þó að við stjórnum því ekki, að veðrið hefur gríðarlega mikil áhrif.“ Aukin þjónusta með auknum fjölda ferðafólks Vestmannaeyingar eru ánægðir með hversu mikið þjónusta hefur aukist með auknum fjölda ferðamanna. Ótal veitingastaðir og söfn eru í eyjunni og fjölbreytt afþreying í boði. „Þetta er náttúrulega forsenda þess að það sé hægt að halda úti öllum þessum veitingastöðum og þessari afþreyingu. Svo finnst okkur Eyjamönnum mjög gaman að hafa iðandi líf hér í samfélaginu.“