Læknir á Landspítalanum notaði upplýsingar úr sjúkraskrám fólks til þess að hafa samband við það í þeim tilgangi að beina því í viðskipti við einkarekið fyrirtæki sem hann starfaði hjá. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem féll í júlí en birtur var á vef stofnunarinnar í dag. DV greindi fyrst frá. Í útdrætti úr úrskurðinum kemur fram að Persónuvernd hafi lokið frumkvæðisathugun á vinnslu persónuupplýsinga af hálfu læknisins vegna ábendingar sem stofnuninni barst um að hann hefði notað aðgang að sjúkraskrárkerfi Landspítalans til að afla sér fjárhagslegs ávinnings. Læknirinn byggði á því að vinnslan hefði samrýmst persónuverndarlöggjöf og farið fram í umboði Landspítalans. Féllist Persónuvernd ekki á ábyrgð Landspítalans byggði læknirinn á því að vinnslan hefði verið nauðsynleg vegna lagaskyldu til þess að veita umönnun og meðferð á sviði heilbrigðisþjónustu. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að læknirinn væri ábyrgðaraðili vinnslunnar enda hefði hann notað upplýsingarnar í eigin þágu, vegna verks sem ekki félli innan verksviðs Landspítalans. Með hliðsjón af niðurstöðu embættis landlæknis um að læknirinn hefði ekki haft heimild til uppflettinganna samkvæmt lögum um sjúkraskrár taldi Persónuvernd að vinnslan gæti ekki staðist þær vinnsluheimildir sem læknirinn vísaði í. Þá hafi vinnsla upplýsinganna ekki verið með lögmætum hætti gagnvart þeim sem hann fletti upp eða í málefnalegum tilgangi. Ekki kemur fram í tilkynningu Persónuverndar hvort læknirinn hafi sætt viðurlögum vegna athæfisins. Samkvæmt frétt Landlæknis frá júní höfðu þá tveir heilbrigðisstarfsmenn verið sviptir leyfi það sem af var ári. Algengasta orsök sviptingar starfsleyfis á árunum 2025 var lyfjastuldur, en meðal annarra ástæðna sem nefndar eru, eru óheimilar uppflettngar í sjúkraskrám.