Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna hvetur mannréttindastjórann til að kalla ástandið á Gaza þjóðarmorð

Rúmlega 500 starfsmenn hjá mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna hafa skrifað undir bréf til Volker Türk, mannréttindastjóra SÞ, þar sem hann er hvattur til að nota hugtakið þjóðarmorð til að lýsa ástandinu á Gaza. Starfsfólkið segir skýrslur bæði stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna og óháðra sérfræðinga sýna fram á að skilyrði fyrir notkun hugtaksins samkvæmt lagalegri skilgreiningu séu uppfyllt. „Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna ber bæði lagaleg og siðferðileg skylda til að fordæma þjóðarmorð,“ stendur í bréfinu. „Að fordæma ekki þjóðarmorð í framkvæmd grefur undan trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna og mannréttindakerfinu sem slíku.“ Höfundar bréfsins hvöttu Sameinuðu þjóðirnar til að endurtaka ekki söguleg mistök og bentu á að gjarnan hefði verið bent á „þögn“ SÞ í þjóðarmorðinu í Rúanda árið 1994 sem eitt versta siðferðislega feilspor stofnunarinnar. „Ég veit að réttlætiskennd okkar allra er misboðið vegna hryllingsins sem við erum vitni að og að við finnum fyrir gremju í ljósi vanmættis alþjóðasamfélagsins til að binda enda á þessar aðstæður,“ hafði fréttastofa Reuters eftir Türk um bréfið. Hann hvatti starfsfólkið til að sýna samheldni frammi fyrir áskorunum sem steðja að stofnuninni.