Þátttakandi í árásinni á þinghúsið í Washington fær hermannsútför

Bandaríski flugherinn hefur ákveðið að veita Ashli Babbit, sem bandarísk lögregla skaut til bana þegar hún reyndi að ryðjast inn á lokað svæði í árás stuðningsmanna Donalds Trump á þinghúsið í Washington 6. janúar 2021, útför að hermannssið með fullri sæmd. „Eftir að hafa gert úttekt á kringumstæðunum við andlát Babbitt liðþjálfa hefur flugherinn boðið fjölskyldu Babbitt liðþjálfa hermannsútför með sæmd,“ sagði talsmaður flughersins í gær. Fjölskylda Babbitts hafði farið fram á að hún hlyti hermannsútför en hafði verið synjað af ríkisstjórn Joe Biden. Babbitt var fyrrum hermaður í flugher Bandaríkjanna sem hafði gegnt þjónustu í Afganistan, Írak og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hún var meðal stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem gerðu árás á þinghúsið í Washington þann 6. janúar 2021 til þess að stöðva þingfund þar sem átti að staðfesta sigur Joe Biden gegn Trump í forsetakosningum Bandaríkjanna 2020. Trump hafði þá ítrekað logið því að hann væri réttmætur sigurvegari kosninganna og að Biden hefði svindlað. Lögreglumaður skaut Babbitt til bana þegar hún reyndi að ryðja sér leið inn í móttökurými forseta þingsins á meðan verið var að rýma bygginguna vegna óeirðanna. Babbitt var eini árásarmaðurinn sem lögregla drap þennan dag en nokkrir til viðbótar létust í árásinni eða stuttu eftir hana og rúmlega 100 lögreglumenn særðust. Í lögreglurannsókn á dauða Babbitts var komist að þeirri niðurstöðu að lögreglumaðurinn sem skaut hana hefði ekki athafnað sig á saknæman hátt. Eftir að Trump sneri aftur á forsetastól eftir kosningarnar í fyrra féllst stjórn hans engu að síður á að greiða fjölskyldu Babbitts tæpar fimm milljónir Bandaríkjadala í skaðabætur með dómssátt. Stuttu eftir að Trump tók við embætti á ný veitti hann öllum þátttakendum í árásinni á þinghúsið sakaruppgjöf. Trump, sem enn heldur því ranglega fram að svindlað hafi verið í forsetakosningunum 2020, hefur kappkostað að endurskrifa söguna af því sem gerðist 6. janúar 2021 og hefur slegið andláti Babbitt upp sem píslarvættisdauða.