Segir versnandi samband við Rússland ekki Aserum að kenna

Ilham Aliyev forseti Aserbaísjans fór hörðum orðum um Rússland og söguleg samskipti Rússa og Asera í viðtali sem hann veitti sjónvarpsstöðinni Al-Arabiya í vikunni. Ummæli hans eru talin bera merki um versnandi samband Rússlands og Aserbaísjan að undanförnu. Aliyev drap á sögu Aserbaísjans og Rússlands og benti á að þegar rússneska keisaradæmið hrundi árið 1917 hafi Aserar lýst yfir sjálfstæði og stofnað Lýðstjórnarlýðveldið Aserbaísjan. Ný stórn rússneska sovétlýðveldisins hafi hins vegar „gert innrás í og hernumið“ landið árið 1920. „Við stofnuðum okkar eigið ríki en bolsévikarnir tóku það af okkur,“ sagði Aliyev. Í viðtalinu kenndi Aliyev Sovétríkjunum sálugu jafnframt um að hafa skapað ágreining um landsvæði milli Armena og Asera með því að „gefa“ armenska sovétlýðveldinu héraðið Zangezúr, sem er í dag hluti af Sjúník-héraði í Armeníu. Samskipti Aliyev við Rússland hafa snarversnað að undanförnu í kjölfar þess að asersk farþegaflugvél hrapaði á jóladag í fyrra með þeim afleiðingum að 38 manns fórust. Talið er að rússneski herinn hafi skotið flugvélina niður fyrir mistök. Spenna milli ríkjanna jókst enn frekar í júní þegar tveir aserskir ríkisborgarar létust og rúmlega 50 voru handteknir í lögregluaðgerð í Jekaterínbúrg í Rússlandi. Í viðtalinu sagði Aliyev aðgerðina fordæmalausa en áréttaði að Aserbaísjan bæri ekki ábyrgð á versnandi samskiptum við Rússland. „Við bregðumst bara við á uppbyggilegan og löglegan máta, en við munum aldrei sætta okkur við nein ummerki eða vott um árás eða vanvirðingu gagnvart okkur,“ sagði hann.