Yfirkjörstjórn Bosníu og Hersegóvínu hefur boðað til snemmbúinna forsetakosninga í Lýðveldi Bosníu-Serba, annars af tveimur lýðveldum sambandsríkisins, í nóvember. Þessi ákvörðun er tekin í óþökk Milorads Dodik, forseta Lýðveldis Bosníu-Serba, og bosníuserbneska þingsins. Yfirkjörstjórnin svipti Dodik embætti þann 6. ágúst síðastliðinn eftir að áfrýjunardómstóll staðfesti tveggja ára fangelsisdóm gegn honum og bannaði honum að gegna pólitísku embætti í sex ár. Dodik hafnaði niðurstöðunni og neitaði að stíga til hliðar. Dómurinn snerist um óhlýðni Dodiks við Christian Schmidt, æðsta fulltrúa alþjóðasamfélagsins í Bosníu og Hersegóvínu, sem hefur mjög víðtækar valdheimildir samkvæmt Dayton-samkomulaginu frá 1995. Æðsti fulltrúinn á að sjá til þess að skilmálar samkomulagsins, sem batt enda á blóðuga borgarastyrjöld í landinu eftir upplausn Júgóslavíu, séu virtir. Dodik hefur vefengt lögmæti Schmidts í embættinu þar sem hann var skipaður án ályktunar frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í síðustu viku lét Dodik þing Bosníuserba kjósa um tillögu að þjóðaratkvæðagreiðslu í um sem skyldi haldin 25. október það hvort íbúar lýðveldisins styddu Schmidt og niðurstöðu dómstólsins. Þingið hefur hafnað möguleikanum á að flýta forsetakosningum og hefur bannað kosningaherferðir í aðdraganda þeirra.