EM í dag: Ná Portúgalar að stríða Serbum?

EM karla í körfubolta heldur áfram og í dag er önnur umferð A- og B-riðils. Við sýnum tvo leiki úr B-riðli á RÚV og svo lokaleik dagsins úr A-riðli á RÚV 2: 10:30 Þýskaland - Svíþjóð (RÚV) Þjóðverjar unnu þægilegan 106-76 sigur á Svartfjallalandi í fyrstu umferð á meðan Svíar töpuðu fyrir Finnlandi, 90-93. Þýskaland er ríkjandi heimsmeistari og með mun sterkara lið á pappírnum og ljóst að sænska liðið þarf að eiga sinn allra besta dag vilji það standa í því þýska. 13:30 Litáen - Svartfjallaland (RÚV) Litáar eru á heimavelli og unnu Breta í fyrstu umferð, 94-70, á meðan Svartfellingar töpuðu fyrir Þýskalandi. Einungis sex sæti skilja liðin að á heimslistanum, Litáen er í tíunda sæti og Svartfjallaland í því sextánda, og því megum við eiga von á spennandi og skemmtilegum leik. 18:15 Portúgal - Serbía Serbía er á toppi A-riðils eftir 98-64 sigur á Eistlandi. Portúgal er í 56. sæti heimslistans en gerði sér lítið fyrir og vann Tékkland sem situr í 19. sæti og því heilmikið í portúgalska liðið spunnið. Til þess að vinna Serba, sem eru í öðru sæti á heimslista FIBA, þurfa þeir þó að hitta á frábæran leik. Öll úrslit og stöður í riðlum má finna á sérstakri EM-síðu okkar .