Í dag er síðasti dagur aðalmeðferðar máls númer S-273/2025, svokallaðs Þorlákshafnarmáls - sem hefur verið nefnt svo þar sem það hófst með frelsissviptingu Hjörleifs Hauks Guðmundssonar frá heimili hans í Þorlákshöfn 10. mars, sem síðar fannst látinn í Gufunesi morguninn eftir. Málflutningurinn verður í héraðsdómi Suðurlands. Á dagskrá er munnlegur málflutningur ákæruvaldsins og lögmanna fimm sakborninga. Þrír þeirra eru ákærðir fyrir manndráp, frelsissviptingu, fjárkúgun og rán: Stefán Blackburn, Lúkas Geir Ingvarsson og Matthías Björn Erlingsson. Stefán og Lúkas gengust við sök á frelsissviptingu og ráni á fyrsta degi aðalmeðferðar á mánudaginn, auk þess sem Stefán gekkst við tilraun til fjárkúgunar. Báðir neita sök á manndrápi. Matthías neitar alfarið sök, Tvö til viðbótar sæta ákæru, tvítug stúlka og 18 ára piltur. Hún er ákærð fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni, hann fyrir peningaþvætti. Bæði neita sök. Héraðssaksóknari krefst refsingar í dag Á mánudaginn báru sakborningar vitni. Á þriðjudag og miðvikudag báru aðstandendur sakborninga, lögregla og ýmsir sérfræðingar vitni. Í gær var hlé og í dag, föstudag, flytur sækjandinn, Karl Ingi Vilbergsson saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara ræðu, þar sem hann reifar málið og hvaða refsinga verður krafist. Síðan kemur röðin að verjendunum fimm. Hver og einn má flytja tvær ræður. Ákærðu hafa rétt til að taka til máls að loknum ræðum ákæranda og verjenda. Eftir málflutninginn er mál dómtekið og dómari hefur fjórar vikur til þess að kveða upp dóm. Þinghald þessa síðasta dags aðalmeðferðarinnar hefst klukkan 8.15, samkvæmt dagskrá er áætlað að þinghald standi til klukkan 16. Greint verður frá því sem fram fer í dómsal hér á ruv..is .