Ingi Þór Ágústsson er hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður þjónustu á Eirhömrum. Hann er sundkennari og þekktur einnig þekktur fyrir að lýsa sundi á RÚV af eftirtektarverðri ástríðu og innlifun. Ingi Þór var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hann sagði frá lífi sínu, störfum og áformum. Ingi Þór er Ísfirðingur sem býr í Reykjavík, en hjartað hans tilheyrir Vestfjörðum. Foreldrar hans skildu þegar hann var þriggja ára. Hann er miðjubarn, eldri systir hans og yngri bróðir fylgdu móður þeirra en hann bjó með föður sínum hjá ömmu sinni og afa á Ísafirði um hríð. Fór tvítugur að velta fyrir sér hvers vegna hann var skilinn eftir „Pabbi var sjómaður á þessum tíma, þarna er ég alinn upp. Amma var húsmóðir og sá um heimilið þegar ég var þar.“ Honum leið vel á æskuheimilinu og fór ekki að velta því fyrir sér fyrr en síðar hvers vegna hann var sá eini í systkinahópnum sem fylgdi ekki móðurinni. „Seinna meir þegar ég var kominn yfir tvítugt fór ég að velta fyrir mér af hverju ég? Það var bara spurning um hver yrði eftir, móðir mín var einstæð með þrjú börn og ég var miðjubarnið, skilinn eftir hjá pabba. Ég veit ekki af hverju, verð að viðurkenna það,“ segir hann. „En ég átti yndislega æsku, ég verð að segja það. Það var yndislegt að alast upp á Ísafirði og að fá að kynnast öllu sem þarna var ríkjandi.“ En aðskilnaðurinn varð til þess að hann þekkir móðurætt sína lítið, en föðurættina vel. „Við höldum mjög góðu sambandi sem er æðislegt. Ísafjörður hefur alltaf verið okkar staður.“ Hann hjúkka og hún lögga Kona Inga Þórs, Rósamunda Jóna Baldursdóttir, er lögmaður og lögreglumaður. Ingi Þór segir að mörgum þyki óvanalegt að karlmaðurinn í sambandinu sé hjúkrunarfræðingur og konan lögga. Hann segist ekki skilja hvers vegna kynbræður hans séu ragir við að læra hjúkrun. Hann útskrifaðist árið 1997 og segir lítið hafa fjölgað í náminu síðan þá. „Ég var sá fyrsti sem gekk í gegnum þennan svokallaða klásus sem er enn við lýði. Það er sirka einn til tveir á ári síðan 1956 sem útskrifast úr hjúkrun sem er sorglegt því við erum helmingur mannkyns.“ Áhuga hans á hjúkrun má ekki síst rekja til áhuga á öllu því sem mannlegt er. „Mig langaði líka í læknisfræði en ég komst að því á sínum tíma að læknar voru ekki í miklum samskiptum við einstaklingana.“ Sinnti börnum og konum sem stigu á jarðsprengjur Ári eftir að hann útskrifaðist fór hann til Júgóslavíu til að starfa. Það var stór ákvörðun að fara frá konu og tveimur ungum börnum en þetta var mikið ævintýri. Hann gekk í breska herinn og fór sem friðargæsluliði til lands sem var illa farið eftir borgarastyrjöld. Hann var í Split um tíma sem var illa farin. „Ég bjó í tjaldi í miðri gamalli verksmiðju sem var sjúkrahúsið og við sinntum þar bæði hermönnum og almennum borgurum. Stærstu slysin voru þegar börn og konur stigu á jarðsprengjur sem voru um allt,“ segir hann. „Ágætisvinur minn sem ég kynntist er enn þarna úti að fjarlægja sprengjur.“ Rosalega gott að búa á Íslandi Konan hans sagði ekki já strax þegar hann sagði henni frá áformum sínum, en skildi ákvörðunina. „Eftir á að hyggja er stórfurðulegt að maður hafi farið fram á þetta. Ég var í rúmt ár,“ segir Ingi sem var reynslunni ríkari eftir árið. „Maður kynntist því að það er ekki allt sjálfgefið í lífinu og við höfum það rosalega gott á Íslandi. Ísland er stórkostlegt land. Og þegar maður skoðar þessar hörmungar sem ganga yfir skildi ég stríð. Fram að þessu hafði maður séð stríð í einhverjum dýrðarljóma en þarna kynntist maður hörmungunum.“ Ásamt því að hjúkra kenndi Ingi Þór börnum ensku í skóla og segir það hafa verið æðislegt. En það var margt erfitt. „Maður kynntist þeirri örbirgð sem þarna var, hestakerrur á vegunum og svo Bensinum sem var þarna líka,“ segir hann. „Það voru engin umferðarskilti neins staðar, það var allt á kortum á blöðum sem við hermenn höfðu.“ Síðan hann kom heim árið 1999 hefur hann ekki ferðast á þessar slóðir. „Ég kynntist mörgu og sá margt sem var erfitt í mörg ár á eftir,“ segir hann en segir að það gæti breyst í framtíðinni. Þakklátur Agli Helgasyni fyrir hrósið Fylkir frændi Inga Þórs kynnti hann fyrir sundi. Hann var mikill sundmaður sem kenndi Inga að synda og síðan má segja að hann hafi verið í lauginni. Hann æfði sund með Vestra á Ísafirði og liðið varð bikarmeistari eitt árið á meðan Ingi var vestra. „Sundhreyfingin er yndisleg, það er bara þannig. Mér fannst þetta æðislegur tími og félagsskapur. Við erum tíu vinir sem enn höldum hópinn frá þessum árum.“ En seinna varð hann sundþjálfari. „Eftir að ég hætti að synda var mér kippt upp á laugarbakkann því ég kann að tala og ég hef verið þjálfari eiginlega síðan, setið í stjórnum og sundsambandinu og alls staðar.“ Egill Helgason hafði eitt sinn orð á því að Ingi Þór væri ein stjarna Ólympíuleikanna því hann lýsti sundi af svo mikilli innlifun. „Ég þakka Agli mikið fyrir þetta. Síðan ég var lítill hef ég haft mikla ástríðu fyrir þessu,“ segir hann. „Og ég hef mikla ástríðu fyrir þjálfun, hoppandi, skoppandi og æpandi á laugarbakkanum.“ Brennur fyrir málefnum aldraðra Í dag vinnur hann við öldrunarhjúkrun og hefur gert í um áratug. Fjölskyldan fluttist til Akureyrar áramótin 2015-2016 og þá sótti Ingi Þór um að verða deildarstjóri á öldrunarheimili Akureyrar. „Ég er að vinna við öldrunarhjúkrun og hef gert það í rúm tíu ár. Ég verð að viðurkenna að ég hef algjörlega fundið mig í þessu. Við vorum í sjö ár á Akureyri, æðislegur tími.“ Hann hefur líka tekið þátt í bæjarpólitíkinni á Ísafirði og segir að pólitíkin kítli. „Þetta samfélag má vera betra að mörgu leyti, ég brenn fyrir ákveðnum málefnum,“ segir hann. Hann gaf jafnvel kost á sér á lista í síðustu alþingiskosningum en var ekki stillt upp. „Eins og einhver sagði: það er ekki voðalega mikil eftirspurn eftir miðaldra feitum karlmönnum og það er kannski þess vegna sem ég er ekki farinn aftur í pólitík,“ segir hann og hlær. Sinnir bæði íbúum og aðstandendum Hann er þó ekki svekktur því hann elskar vinnuna sína sem er bæði gefandi og krefjandi. „Ég starfa með yndilsegu folki í málaflokki sem er að verða mjög stór og það líður varla vika án þes að ég sé með grátandi ættingja inni á skrifstofu hjá mér sem er mjög sorglegt,“ segir hann. Nú tekur hann þátt í stóru verkefni sem nefnist Gott að eldast. Hann brennur fyrir þjónustu við aldraða sem hann segir að þurfi að bæta mikið, meðal annars sinna öllum þeim fjölda sem er á löngum biðlistum eftir hjúkrunarheimilum. „Ég hef brunnið fyrir því síðustu tíu ár að gera þetta betur.“ Ingi Þór Ágústsson er hjúkrunarfræðingur og íþróttalýsandi af guðs náð. Hann segir synd hve fáir karlmenn læri hjúkrun á Íslandi. Ingi Þór bjó í Júgóslavíu í eitt ár þar sem hann hlúði að slösuðum í landi sem var illa farið eftir borgarastyrjöld.