Óhætt er að segja að það séu hellidembur í kortunum suðvestanlands seinni partinn í dag. Þar er útlit fyrir að verði blautast en líka hlýjast í dag. Veðurstofan spáir austlægri eða breytilegri átt. Skýjað verður með köflum og dálitlar skúrir, nema hvað suðvestanlands má búast við enn meiri úrkomu, hellidembum. Þokuloft eða súld verður úti við norður- og austurströndina en austast fer að rigna seint í kvöld. Útlit er fyrir tólf til nítján stiga hita og verður hlýjast á Suðvesturlandi. Norðaustlæg átt, fimm til þrettán metrar á sekúndu og víða dálítil rigning eða súld á morgun, en stöku skúrir suðvestantil. Hiti átta til sautján stig, hlýjast syðst.