Níu sagt upp og framkvæmdastjórinn hættir

Trausti Árnason framkvæmdastjóri hefur sagt upp starfi sínu hjá Vélfagi og níu starfsmönnum hefur verið sagt upp vegna alvarlegs rekstrarvanda. Þessu greinir Morgunblaðið frá í dag og hefur eftir Ivan Nicolai Kaufmann sem á rúmlega 80 prósenta hlut í fyrirtækinu. Vélfag hefur sætt viðskiptaþvingunum vegna eigendasögu fyrirtækisins. Rússneska útgerðarfélagið Norebo, sem er talið hluti af skuggaflota Rússa, keypti stóran hluta í því nokkrum mánuðum fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Síðan hafa orðið eigendaskipti á því og stærstur hlutinn er nú í eigu Kaufmanns sem hefur stundað mikil viðskipti við eigendur Norebo. Kaufmann segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að Vélfag standi frammi fyrir alvarlegum rekstrarvanda eftir að farið var að beita fyrirtækið viðskiptaþvingunum. Hann segir að fyrri eigendur í Norebo hafi hvorki tengsl við Vélfag nú né aðkomu að rekstri þess. Blaðið hefur eftir Kaufmann að hann gagnrýni utanríkisráðuneytið og Arion banka fyrir lítinn sveigjanleika og skilning.