Tugir samtaka standa að mótmælafundum gegn þjóðarmorði

Mörg af stærstu samtökum landsins eru meðal þeirra sem standa að fimm fundum samtímis á laugardag eftir viku undir heitinu Þjóð gegn þjóðarmorði. 52 samtök eru á lista þeirra sem standa að fundinum; stéttarfélög, baráttufélög fyrir mannréttindum og stjórnmálafélög. Þeirra á meðal eru Alþýðusamband Íslands, VR, BHM, BSRB, Efling, Kvenréttindafélag Íslands, Félagið Ísland-Palestína og Samtök hernaðarandstæðinga auk Stígamóta, Hagsmunasamtaka brotaþola og Samtakanna 78. Fundirnir hefjast klukkan tvö á morgun og verða haldnir á Austurvelli í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og í Stykkishólmi. „Við höfnum þjóðarmorði og brotum Ísraels á alþjóðalögum. Tími yfirlýsinga og undanbragða er liðinn, tími aðgerða er runninn upp!“ segir í fundarboði. Ísraelsher sagði í dag að Gazaborg væri hættulegt bardagasvæði og sagði að engin hlé yrðu gerð á hernaði þar. Slík hlé hafa verið gerð með það að markmiði að liðka fyrir dreifingu hjálpargagna á ákveðnum stöðum. Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, starfsmaður sambandsins, skrifa aðsenda grein sem birtist á Vísi í morgun. „Íslendingar geta ekki, fremur en aðrir, liðið þau viðurstyggilegu grimmdarverk sem Ísraelar fremja á degi hverjum á Gaza-svæðinu og víðar í Palestínu. Það er löngu tímabært að íslensk stjórnvöld hætti að láta almennar og innihaldslitlar yfirlýsingar nægja um þann hrylling sem almenningur í Palestínu býr við vegna útþenslustefnu og landvinningastríðs þeirra ofstækismanna sem ráða ríkjum í Ísrael.“ „Þögul hjáseta á meðan iðnvætt þjóðarmorð fer fram felur í sér samábyrgð og siðleysi,“ skrifa þau. „Á fundinum á Austurvelli, á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og Stykkishólmi, verður helsta krafan sú að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur láti af geð- og framtaksleysi sínu og styðji án allra undanbragða þær aðgerðir á alþjóðavettvangi sem efnt er til í því skyni að koma andstyggð heimsbyggðarinnar vegna framferðis Ísraela til skila.“ Leiðrétt: Fundurinn er laugardaginn 6. september, ekki á morgun eins og stóð í upphaflegri gerð fréttarinnar.