Ekkja og sonur Hjörleifs fara fram á bætur

Aðalmeðferð í Þorlákshafnarmálinu svokallaða heldur áfram. Eftir að Karl Ingi Vilbergsson saksóknari hafði lokið máli sínu var næst borin fram einkaréttarkrafa ekkju Hjörleifs Hauks Guðmundssonar. Farið er fram á að allir sakborningar, nema 18 ára pilturinn - það er þau Stefán Blackburn, Lúkas Geir Ingvarsson, Matthías Björn Erlingsson og stúlka um tvítugt -greiði henni 11,5 milljónir með vöxtum. Krafan byggir meðal annars á missi framfæranda, andlegum miska og kostnaði við útför. Svipt öryggi á eigin heimili Lögmaður sagði að þau hefðu svipt ekkjuna öryggi á eigin heimili, hún hefði ekki getað kvatt lífsförunaut sinn á dánarstundu og mikil fjölmiðlaumfjöllun og vangaveltur sem ekki byggðust á staðreyndum hefði reynst henni þungbær. Hún hefði þjáðst af þunglyndi, þetta hefði valdið henni langvarandi skaða og hún hefði þurft aðstoð. Ljóst væri að hún þyrfti áfram að leita sér aðstoðar. Þá reifaði lögmaður að þeim sem hefðu átt í samskiptum við Hjörleif heitinn hefði átt að vera fullljóst að hann gekk ekki heill til skógar vegna veikinda sinna. Ljóst væri að ákærðu hefðu með háttsemi sinni ógnað heilsu ekkjunnar og velferð hennar. Tjón hennar mætti telja augljóst, en það lægi líklega ekki að fullu fyrir. Langur tími gæti liðið þar til afleiðingar kæmu að fullu í ljós. Talið var til að brotin ættu sér líklega enga hliðstæðu í íslenskri réttarsögu. Mikilvægur tími framundan sem að engu varð Önnur einkaréttarkrafa var lögð fram fyrir hönd sonar Hjörleifs heitins á hendur sömu fjóru sakborningum. Hún er að upphæð átta milljónir með vöxtum. Sonurinn var einkabarn föður síns. Í málflutningi segir meðal annars að Hjörleifur hafi verið 65 ára þegar hann féll frá, fram undan hafi verið mikilvægur tími í lífi hans þar sem hann hefði getað notið samveru við barnabörn sín. Ljóst sé að kúvending hafi orðið á lífi sonarins, ekki sé hægt að setja verðmiða á slíka vanlíðan. Frá fráfalli föðurs síns hefur sonurinn glímt við ýmsa andlega erfiðleika, að mati sálfræðings er nauðsynlegt að hann njóti handleiðslu til að fást við það áfall sem hann varð fyrir. Þá sé það gríðarlegt áfall að lesa nákvæmar lýsingar á því ofbeldi, sem faðir hans þurfti að þola í aðdraganda andláts síns.