Grafarvogsbúar og fyrirtæki í hverfinu verða að búa sig undir að hafa ekkert heitt vatn næstu klukkutímana. Stofnlögnin sem sér borgarhlutanum fyrir heitu vatni rofnaði í nótt og viðbúið er að margir klukkutímar líði áður en hægt er að gera við. Stofnlögnin rofnaði í göngum sem liggja undir Vesturlandsveg. Þrátt fyrir að aðgengi að lögninni sé gott við hefðbundnar aðstæður er illmögulegt að komast að henni núna vegna þess hversu heitt er í göngunum. Þar flæðir 80 gráðu heitt vatn og getur enginn unnið að viðgerð í göngunum að svo stöddu vegna hitans. Næsta skref er að losna við heita vatnið úr gögnunum svo þar kólni og verði hægt að vinna að viðgerð, segir Silja Ingólfsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Veitum. Hún segir ljóst að margir klukkutímar líði áður en heitt vatn kemst aftur á í Grafarvogi.