Forsætisráðherra Taílands fjarlægður úr embætti

Stjórnskipunardómstóll Taílands hefur fjarlægt forsætisráðherra landsins, Paetongtarn Shinawatra, úr embætti. Hún segist sætta sig við úrskurð dómstólsins. Afdrifaríkt símtal við fyrrverandi leiðtoga Kambódíu Aðdraganda ákvörðunar dómstólsins má rekja til samskipta Shinawatra við Hun Sen, fyrrverandi leiðtoga Kambódíu. Í símtali ræddu þau langvarandi landamæradeilu ríkjanna tveggja. Upp úr deilunni sauð í maí með þeim afleiðingum að einn kambódískur hermaður féll. Í símtalinu, sem var lekið til fjölmiðla, heyrist Shinawatra ávarpa Hun Sen sem frænda og vísa til foringja taílenska hersins í norðausturhluta landsins sem andstæðings síns. Hun Sen hefur viðurkennt að hafa hljóðritað símtalið en neitar að hafa lekið því. Shinawatra var sett af tímabundið í júlí meðan málið var til rannsóknar. Sættir sig við úrskurðinn Í ákvörðun stjórnskipunardómstólsins segir að Shinawatra hafi ekki varðveitt stolt þjóðarinnar og tekið persónulega hagsmuni fram yfir hagsmuni landsins. Það hafi verið alvarlegt brot og hún hafi ekki fylgt siðferðislegum viðmiðum. Shinawatra tjáði sig við fréttamenn eftir ákvörðun stjórnskipunardómstólsins. Hún sagðist sætta sig við úrskurð dómstólsins. „En sem Taílendingur, held ég fast fram einlægni í vinnu minni fyrir landið. Ég virði mest líf fólks, bæði hermanna og almennings. Ég ætlaði að bjarga lífi þeirra, það var það sem ég ætlaði að koma á framfæri,“ sagði Shinawatra. „Ég elska þessa þjóð“ Hún er fimmti leiðtogi landsins síðan 2008 sem hefur verið fjarlægður úr embætti eftir ákvörðun dómstólsins. Hún segir þetta enn aðra skyndilega breytingu í pólítik landsins. „Ég þakka öllum sem veittu mér tækifæri til að vinna síðasta árið. Ég elska þessa þjóð, trúarbrögðin og konungsveldið eins mikið og nokkur manneskja gæti.“ Varaforsætisráðherra landsins, Phumtham Wechayachai, tekur við embætti forsætisráðherra núna. Hann hefur gengt embætti forsætisráðherra síðan Shinawatra var sett af í júlí. Fulltrúadeild þingsins kýs síðan nýjan forsætisráðherra en aðeins af fyrir fram völdum lista frambjóðenda.