Arnar Pétursson er áfram landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins en Óskar verður honum nú til halds og trausts. Fram kemur í tilkynningu frá HSÍ að Óskar Bjarni verði einnig áfram hluti af þjálfarateymi karlalandsliðsins, en hann hefur verið það síðan Snorri Steinn Guðjónsson tók við karlalandsliðinu. Óskar þekkir landsliðsumhverfið vel. Hann var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í annarri tíð Guðmundar Guðmundssonar á árunum 2012, hjá Geir Sveinssyni 2016-2018 og verið hluti af þjálfarateymi Snorra Steins frá 2023. Þá var Óskar einnig aðstoðarmaður Axels Stefánssonar með kvennalandslið Íslands um skeið árið 2019. Að auki hefur Óskar stýrt meistaraflokkum karla og kvenna hjá Val og unnið þar fjölda titla, meðal annars gerði hann karlaliðið að Evrópubikarmeisturum á síðasta ári. Einnig hefur hann þjálfað yngri flokka Vals í áratugi. HM fram undan Fyrsta verkefni kvennalandsliðsins þar sem Arnar Pétursson hefur Óskar Bjarna sér við hlið verður í september þegar liðið mun æfa og spila svo vináttulandsleik við Dani úti í Danmörku. Liðið leikur svo fyrstu leiki sína í undankeppni EM 2026 við Færeyjar og Portúgal um miðjan október áður en kemur að heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og Hollandi sem hefst í lok nóvember. Ísland er í riðli með Serbíu, Þýskalandi og Úrúgvæ á HM og komast þrjú lið áfram í milliriðlakeppni mótsins.