Lítil ánægja með borgarstjórann, meirihlutann og minnihlutann

Óánægja virðist best lýsa afstöðu Reykvíkinga til kjörinna fulltrúa sinna í borgarmálum óháð því hvort spurt sé um borgarstjórann, meirihlutann eða minnihlutann. Tæplega helmingur segist óánægður með störf þeirra allra. Um fimmtungur er ánægður með borgarstjórann og litlu fleiri með meirihlutann. Aðeins tíundi hver borgarbúi er svo ánægður með minnihlutann. Þetta kemur fram í borgarvita Maskínu, skoðanakönnun sem lögð var fyrir borgarbúa upp úr miðjum mánuði. Samkvæmt könnuninni eru 45 prósent Reykvíkinga óánægð með störf borgarstjóra en nítján prósent ánægð. Þetta eru svipaðar tölur og í síðustu könnun í apríl en þó hefur óánægjan vaxið nokkuð síðan þá. Óánægjan með störf borgarstjóra er mest austan Elliðaárósa og þar er minnst ánægja með hana. Rétt rúmlega helmingur kjósenda Samfylkingarinnar er ánægður með störf borgarstjóra en tæp níu prósent óánægð. Mest er óánægjan með Sjálfstæðismanna, 86 prósent segja borgarstjóra hafa staðið sig illa og stór hluti þeirra telur hana hafa staðið sig mjög illa. Heiða Björg Hilmisdóttir mælist með nokkurn veginn sömu ánægju og óánægju og Framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson, forveri hennar á stóli borgarstjóra, naut í nóvember í fyrra. Nokkru seinna sprengdi hann meirihlutann vegna óánægju með samstarfið og Heiða Björg tók við. Nokkuð fleiri voru ánægðir með störf Dags B. Eggertssonar síðasta ár hans í embætti en óánægjan var líka meiri. Afstaða fólks til meirihlutans er mjög lík afstöðu þess til borgarstjórans. 21 prósenti finnst meirihlutinn standa sig vel en 47 prósentum finnst hann standa sig illa. Það er svipað og í síðustu könnunum. Afstaða fólks til borgarstjóra, meirihluta og minnihluta er greind eftir aldri, kyni, búsetu innan höfuðborgarinnar, menntun, tekjum og því hvaða flokk fólk myndi kjósa. Af 28 breytum er það aðeins í einni sem meirihluti er ánægður með störf meirihlutans, það er meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar. Rúmlega níu af hverjum tíu Sjálfstæðismönnum eru ósáttir við störf meirihlutans. Maskína hefur mælt afstöðu til borgarstjórnar í Borgarvita sínum síðan í desember 2022. Á því tímabili mældist ánægjan með störf meirihlutans minnst í ágúst 2023, aðeins 15 prósent, og óánægjan mest, 59 prósent. Sem fyrr mælist ánægja borgarbúa minnst þegar spurt er út í störf minnihlutans í borgarstjórn. Tíu prósentum finnst hann standa sig vel en 38 prósentum illa. Minnihlutinn virtist aðeins hafa sótt í sig veðrið í síðustu könnun þegar sextán prósentum þótti hann standa sig vel en sú þróun hefur gengið til baka. Minnihlutinn getur hvergi státað af því að njóta mikillar ánægju með störf sín. Stuðningsmönnum Miðflokksins finnst minnihlutinn í borgarstjórn hafa staðið sig best þrátt fyrir að flokkurinn hafi ekki náð inn í borgarstjórn í síðustu kosningum. 26 prósent þeirra eru ánægð með störf minnihlutans. 24 prósent Sjálfstæðismanna eru sömu skoðunar. Mest er óánægjan með störf minnihlutans meðal kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, 60 til 65 prósent. Sem fyrr er Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, sá borgarfulltrúi sem flestum Reykvíkingum finnst hafa staðið sig best á kjörtímabilinu. 24 prósent nefna hana en sautján prósent Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Næstir koma þeir Kjartan Magnússon Sjálfstæðisflokki og Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, sem níu prósent nefna. Átta prósent nefna Alexöndru Briem, oddvita Pírata, og sex prósent borgarstjórann Heiðu Björg Hilmisdóttur, oddvita Samfylkingarinnar. Á eftir þeim koma Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, í Viðreisn, og Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir sem fimm prósent segja hafa staðið sig best, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir Sjálfstæðisflokki með þrjú prósent og Líf Magneudóttir, Vinstri-grænum, með tvö prósent. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, fólk sem er dregið með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu 18. til 25. ágúst og svöruðu 1.029.