Verjandi Stefáns Blackburn krefst þess að umbjóðandi sinn verði sýknaður af ákæru um manndráp í Þorlákshafnarmálinu svokallaða, þar sem Hjörleifur Haukur Guðmundsson lést eftir að hafa verið numinn á brott á heimili sínu 10, mars, misþyrmt og skilinn eftir fáklæddur í Gufunesi þar sem hann fannst illa leikinn daginn eftir og lést skömmu síðar. Gerð er sú krafa að Stefáni verði gerð vægasta mögulega refsing og gæsluvarðhald dregið frá. Verjandinn, Páll Kristjánsson, segir 6-8 ára vera hæfilegan tíma. Þá krefst Páll lækkunar á einkaréttarkröfum sem ekkja og sonur Hjörleifs heitins gera á hendur Stefáni og þremur öðrum sakborningum og að málskostnaður verði, að minnsta kosti að hluta, greiddur af ríkissjóði. Síðasti dagur aðalmeðferðar málsins er í dag. Saksóknari hefur þegar flutt mál sitt og lögmenn ekkju og sonar sem fara fram á bætur frá fjórum af fimm sakborningum í málinu. Páll er fyrsti verjandinn til að flytja mál sitt. Ákæruvaldið lagði til fyrr í morgun að Stefáni verði gerð að minnsta kosti 16 ára hámarksrefsing fyrir manndráp, frelsissviptingu, fjárkúgun og rán og leggur til sömu viðurlög fyrir Lúkas Geir Ingvarsson sem er ákærður fyrir sömu brot. Lögð er til sama refsing fyrir þann þriðja sem ákærður er fyrir það sama - Matthías Björn Erlingsson en lagt til að litið verði til ungs aldurs hans. Saksóknari lagði til svokallaða viðbót á refsingu Stefáns og Lúkasar - þ.e. sem gæti verið allt að fjögur ár til viðbótar þeim 16 sem hámarksrefsing kveður á um. Stefán hefur gengist við þremur síðustu ákæruliðunum, en segist saklaus af manndrápi. Páll sagðist hafa haft ákveðna samúð með ákæruvaldinu við að hafa þurft að smíða ákæruna. Í ljósi framburðar Stefáns væri eðlilegast að endurskoða ákæruna. Hann sagði Stefán hafa verið fúsan til að gefa upplýsingar, bæði um eigin hlut og annarra í málinu. Einhverskonar gigg - auðveldur peningur Hann lýsti persónulegum högum Stefáns, hann hefði verið edrú í átta ár og fallið með þeim hörmulegu afleiðingum sem hann væri nú í réttarsal fyrir. Hann væri fjölskyldumaður í fastri vinnu. Hann hefði engin tengsl við brotaþola, en hefði blandast inn í málið að beiðni Lúkasar sem hefði að mestu skipulagt málið. „Einhverskonar gigg - auðveldur peningur,“ sagði verjandinn. Hann sagði hlutverk Stefáns hafa verið að veita aðförinni að Hjörleifi „meiri þunga.“ Páll sagði umbjóðanda sinn hafa talið Hjörleif heitinn vera barnaníðing. „En það stóð aldrei til að ráða manni bana.“ Hann sagði að hafi hegðun Hjörleifs breyst undanfarin misseri vegna framheilaskaða og orðið hömlulausari en áður, eins og fram hefur komið í aðalmeðferð málsins síðustu daga, þá hefði umbjóðandi sinn ekki haft neinar forsendur til að átta sig á ástæðu hegðunarinnar. „Þetta var auðveldur peningur, þarna átti að fara í gigg og þarna raungerðust áhyggjur sem hafa komið fram um að aðgerðir í tálbeitumálum myndu enda með mannsláti,“ sagði Páll. Segir Stefán trúverðugan „Það er óumdeilt að Stefán hefur fyrir dómi gengist við grófu ofbeldisbroti,“ sagði Páll og vísaði þar í að Stefán greindi frá því í vitnisburði sínum á fyrsta degi aðalmeðferðar að hann hefði brotið hönd Hjörleifs. „Það er einstakt, hann er ekkert að fegra sinn hlut. Hann segir ítarlega hvað hann gerði. En getur það valdið bana? Nei. Getur það valdið örkumlum? Já. En ekki bana, og um þetta snýst þetta mál.“ Páll gerði að umtalsefni ýmislegt sem hann taldi hafa farið forgörðum við rannsókn málsins. Til dæmis hefði fingrafararannsókn verið ábótavant, þá hefði ekki verið rannsakað nægilega vel hvort og hvaða áhöldum hefði verið beitt í árásinni og hvernig þau kæmu heim og saman við áverka. Þá ræddi hann nokkuð að framburður þeirra Stefáns og Lúkasar Geirs Ingvarssonar hefur verið nokkuð samhljóða, en öðru máli gegni um framburð þess þriðja sem er ákærður fyrir manndráp: Matthíasar Björns Erlingssonar. „Stefán er trúverðugur. Lúkas er trúverðugur. En Matthías er ekki trúverðugur,“ sagði Páll. Sagði mannslát slæmt fyrir bissnessinn Hann sagði að það versta sem gæti komið fyrir menn sem stunduðu „jaðarvinnu“, eins og hann orðaði það og átti þar við ýmist ólöglegt athæfi, væri mannslát. „Það er vont fyrir bissnessinn.“ „Hafi átt að valda bana - afhverju var þá vopnum ekki beitt? Hvaða tilgangi þjónaði það að taka niðurlægjandi myndband af Hjörleifi? Það er vegna þess að tilgangurinn var að fá hjá honum fé, ekkert annað.“ Páll hélt áfram að spyrja spurninga og svara þeim jafnóðum sjálfur: „Af hverju kláruðu menn ekki manndrápið og földu líkið? Af hverju skildu þeir það eftir? Af hverju hringdu þeir ekki á bráðalið eða lögreglu? Það er vegna þess að þeir töldu hann ekki í lífshættu.“ Hann sagði ekki hægt að sanna, og það hefði ekki verið sannað, að umbjóðandi hans hefði valdið þeim áverkum sem leiddu til andláts Hjörleifs. Í því sambandi rifjaði hann upp ýmsa dóma og dómafordæmi. Verjandinn sagði rannsókn reista á sandi Páll sagði undir lok ræðu sinnar, sem varði í um klukkustund, að með réttu ætti að sakfella Stefán fyrir þau brot sem hann hafi gengist við. Annað ekki. Hann sagði umbjóðanda sinn iðrast gjörða sinna. „En hvað á hann að gera? Koma í blaðaviðtal og biðjast afsökunar?“ Að síðustu ræddi hann rannsókn lögreglu sem hann fann ýmsa vankanta á. Allur fókus hefði farið í að draga gerendur að borðinu, en þar hefði lögregla látið staðar numið. Látið hefði verið hjá líða að rannsaka ýmsa þætti. „Afhverju var rannsóknin ekki kláruð,“ spurði Páll. „Rannsóknin er flott, en hún er reist á sandi. “ „Manndráp er alltaf hrottalegt, en þetta mál er ekki hrottalegra en önnur manndrápsmál,“ sagði verjandinn.