Slaka á í sundlaugum með Sinfóníuhljómsveitinni

Klassíkin okkar, hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er í beinni útsendingu á RÚV í kvöld, í tíunda sinn. Það er ekki aðeins hægt að hlýða á heima í stofu því tónleikunum verður streymt í sundlaugum um allt land. Gísli Rúnar Gylfason, forstöðumaður sundlauga Akureyrar, segir allt að verða klárt fyrir kvöldið. „Við ætlum til dæmis að vera með myndefni og annað og bæði í anddyrinu hjá okkur þannig að fólk geti fengið sér kaffibolla og hlustað á Sinfoníuhjómsveitina og líka bara úti á bakka.“ Hann segir því sérlega góða slökun í boði í pottunum í kvöld. Klassísk tónlist sé eitthvað sem henti fyrir alla. Ég held að allir geti leyft sér að hafa góða sinfóníuhljómsveit í bakgrunni. Þá sé tímasetningin einnig tilvalin því Akureyrarbær eigi afmæli, sem verður fagnað með líflegri dagskrá Akureyrarvöku alla helgina.