40.000 fet: Hefði kannski virkað betur í metoo-bylgjunni

Trausti Ólafsson skrifar: Fyrsta frumsýning leikársins sem nú fer í hönd á höfuðborgarsvæðinu var í Tjarnarbíói á föstudagkvöldið. Tjarnarbíó gegnir í mínum huga mikilvægu hlutverki í leikhúslífi okkar. Þar eiga sjálfstæðu leikhúsin sinn heimavöll – þar springa út mörg blóm frjórra hugmynda. Tjarnarbíó er gamalt í hettunni í þessu hlutverki, því að í þessu sama húsi setti Leikhópurinn Gríma fyrir hálfri öld upp hvert framúrstefnuleikritið á fætur öðru. Verkið sem frumsýnt var í Tjarnarbíói á föstudagskvöldið heitir 40.000 fet og það skrifuðu þær Birta Sól Guðbrandsdóttir og Aldís Ósk Davíðsdóttir. Þær leika líka flugfreyjurnar í leikritinu. Fannar Arnarsson fer með hlutverk flugstjórans og Benóný Arnórsson leikur flugmanninn í þeirri ferð um háloftin, sem leikhúsgestum er boðið að njóta meðan á sýningunni stendur. Í kynningu á 40.000 fetum á vefsíðum Tjarnarbíós má lesa að þarna sé á ferðinni kómískt absúrd-leikverk og það sé „þróað út frá frásögnum kvenna úr flugbransanum, sem og frásögnum af upplifunum kvenna á Íslandi. Undirtónn verksins grefur djúpt í þungar pælingar um kynhlutverk, valdakerfi og stöður og hvað það þýðir að vera ung kona í nútíma íslensku samfélagi, sem útfært er á gráthlægilegan hátt í gegnum þessa flugferð sem áhöfnin býður áhorfendum sínum með í.“ Hér lýkur orðréttri tilvitnun í kynningartexta á 40.000 fetum og ég get ekki látið hjá líða að nefna hve kauðslega þetta er skrifað. Sterkum orðum er hrúgað saman í langar setningar og hrært duglega í súpunni svo úr verður skringilegt merkingarleysi. Hvað í ósköpunum merkir það að undirtónn verksins grafi djúpt í pælingar? Ef átt er við undirtexta þá heyrði ég ekki að hann væri yfirleitt til staðar í leikritinu og sýningin sýndist mér öll vera á yfirborðinu. Og í besta falli er 40.000 fet tímaskekkja, því að sýningin hefði kannski virkað aðeins skár í miðri metoo-byltingunni. Hér á undan tæpti ég á því sem mér finnst vera svolítill ljóður á ráði heimilis sjálfstæðu leikhúsanna. Kynningartextar á sýningum Tjarnarbíós eru oft því marki brenndir að þeir eru frekar klaufalega skrifaðir. Stundum þarf maður að lesa þau orð sem þar standa margsinnis til þess að botna eitthvað í því hvað átt er við. Ég get alveg skilið og sætt mig við að tungumálið breytist í áranna rás og að tjáning í rituðu máli tekur einnig breytingum eftir tíðarandanum. En elsku krakkar, þessi texti sem einhver samdi til þess að kynna 40. 000 fet, er bara alveg hræðilega illa skrifaður. Meðal þess sem þar stendur er: Homo sapiens mæta stríðum í sad-beige forréttinda heimilum sínum. Og næsta setning hljóðar svo: Saltaður próteindrykkur, hvað ertu tilbúin á þig að leggja til að upplifa alsælu kvenleikans? Eins og þetta er ritað á síðum Tjarnarbíós þá er verið að spyrja saltaða próteindrykkinni þessarar spurningar. Og hvaða stríðum er það sem vitsmunaveran maðurinn mætir í dapurlegum fölleitum heimilum sínum? Ef eitthvað gerist heima hjá mér þá gerist það á heimili mínu – en ekki í því – þetta er bara frekar lélegt málfar, börnin góð. Þessu er auðvelt að redda Tjarnarbíó – finnið einhvern eða einhverja sem er flinkur/flink að tjá sig í rituðu máli á íslensku og biðjið hann eða hana að lesa vandlega yfir kynningartexta leikhússins. En svo slæmur sem kynningartextinn á 40.000 fetum er þá lofar hann samt meiru en sýningin stendur undir. Á sviðinu birtast endalausar endurteknar klisjur og ýktar steríótýpískar lýsingar á fólki – sem eru afskaplega ótrúverðugar og lítið fyndnar. Mér finnst hvorki skemmtilegt né andlega uppbyggjandi að horfa á tvo karlmenn leika að þeir séu að runka sér í vinnunni – og það er ótrúlegt að flugmenn stundi þá íþrótt mikið í háloftunum. Ef þetta runk á að hafa einhverja táknræna merkingu um feðraveldi og fárið sem af því stafar, þá er það ekki neinn undirtónn heldur skerandi yfirtónn lélegrar kímnigáfu. Það sama á við um frásögn annarrar flugfreyjunnar af því að hún hafi tekið á móti fimm karlmönnum í bólið sitt, hverjum á fætur öðrum eina nóttina þegar hún var í layover í útlöndum. Þetta er hvorki fyndið né frumlegt, ekki kómískt og ekki absúrd, bara pínulítið tragískt. Fyrir 50 árum kom út skáldsaga eftir Véstein Lúðvíksson sem heitir Eftirþankar Jóhönnu. Ég man ekki betur en það hafi verið í þeirri bók sem söguhetjan sefur hjá þremur mönnum hverjum á fætur öðrum eða kannski bara öllum samtímis. Þegar Eftirþankar Jóhönnu kom út fyrir hálfri öld spurði fólk sig enn þá hvort konur gerðu yfirleitt svoleiðis nokkuð, en nú vitum við að það kemur bara dálítið oft fyrir. Þetta fjöllyndi flugfreyjunnar er þess vegna ekki vitund fréttnæmt lengur og hneykslar næstum engan að heyra frá því sagt. Eigi að síður, ef með þessari sögu er vísað í eitthvað sem raunverulega gerðist, eins og gefið er í skyn að sé í kynningartexta 40.000 feta, þá er þarna verið að brjóta á friðhelgi einkalífs ákveðinnar manneskju. Ragnheiður Guðjónsdóttir er sögð aðstoðarleikstjóri 40.000 feta. Það getur verið erfitt að átta sig á því hvað aðstoðarleikstjórinn gerir á æfingum, en mikið vildi ég óska þess fyrir hönd áhafnarinnar á þessari sýningu, að Ragnheiður hefði gripið sinn dramatúrgíska skurðhníf og brýnt hann vel til þess að skera burtu verstu lýtin á verkinu. Þetta þykist ég vita að Ragnheiður hefði verið vel fær um. Það eitt hefði skipt sköpum að kalla persónurnar bara Gumma og Sigga og Stínu og Gunnu í stað þess að láta þær heita grófyrðum um kynfæri fólks. Það fannst fáum frumsýningargestum fyndið heyrðist mér – enda eru þessar nafngiftir ekkert fyndnar, bara frekar kjánalegar. Og sá hlátur og það fliss sem heyra mátti í salnum framan af frumsýningunni dvínaði fljótt og þagnaði loks næstum alveg. Þegar nær dró lokum sýningarinnar skipti hún um tón – og ég dró andann léttar. Kannski þetta reddist þá eftir allt saman, hugsaði ég, og maður geti bara sagt að sýningin hafi staðist lágmarkskröfur um að vera sýnd í svo sögufrægu leikhúsi sem Tjarnarbíó er. En, vei ó vei, þrátt fyrir tilraun til að skipta um kúrs og koma djúpu pælingunum á dagskrá brotlenti sýningin eins og flugvélin sem er sögusvið hennar. Mér fannst svolítið gaman að sjá Arnór Benónýsson stíga út úr gleymskuþokunni sem leikstjóra 40.000 feta. Skelfing hefði það samt verið gott að hans endurkoma í leikhúsið hefði verið með meiri bravúr en þetta leikrit gaf tilefni til. Arna Tryggvadóttir hannaði lýsingu sýningarinnar og hafði greinilega valið hvítt ljós til þess að lýsa svart-hvíta leikmynd. Mér fannst það koma vel út, en þessi skurðstofuáferð í lýsingu varð samt til þess eins, að brestir verksins komu enn skýrar fram en hefði litrófið í lýsingunni verið fjölbreyttara. Tónlistin í 40.000 fetum var sterkasti þáttur sýningarinnar. Hana spilaði Iðunn Gígja Kristjánsdóttir á píanó sem staðsett var á sviðinu. Sú sviðsetning á samspili tónlistar og sýningar var líka besta hugmyndin í þessu verki. Reyndar var músíkin pínu klisjukennd eins og allt annað í sýningunni, stef sem voru endurtekin aftur og aftur með svipuðum áherslum. En það er vandséð hvernig annað átti að vera og píanóleikur Iðunnar Gígju gerði það bærilegra en ella hefði verið að sitja þegjandi í á annan klukkutíma og horfa á það sem gerðist á sviðinu. Ég dreg í efa að áhafnir íslenska flugflotans fylli hverja sýninguna á fætur annarri á 40.000 fetum. Þegar þetta fólk hefur flutt mig fram og aftur í háloftunum yfir Atlantshafið hvíta hefur mér sýnst það hafa of margt á sinni könnu til þess að það sé mikið að daðra hvert við annað og káfa á farþegum. Mér finnst líka ótrúlegt að þetta oft stórglæsilega fólk sé svo kynsvelt að kynórarnir nái ofurtökum á því í háloftunum. Í 40.000 fetum er dregin upp gróf skrípamynd af þessu fólki í flugbransanum. Þau vinnubrögð eru til marks um vanhugsaða vanvirðingu við heila atvinnustétt. Um það leyti sem Leikhópurinn Gríma átti sitt blómaskeið í Tjarnarbæ, sem nú heitir Tjarnarbíó, skrifaði Oddur Björnsson leikhúspistla í vikublað sem hét Frjáls þjóð. Einn þeirra pistla bar yfirskriftina Það eru leikhúsin sem ala upp públikum. Í greininni fjallaði leikskáldið svo um þá ábyrgð sem leikhúsin bera á því að þroska og þróa smekk áhorfenda og skilning þeirra á leikhúslistinni. Þeirri ábyrgð þarf Tjarnarbíó að standa undir og ekki bregðast unnendum sínum. Trausti Ólafsson leikhúsrýnir Víðsjár fjallar um leikritið 40.000 fet eftir Birtu Sól Guðbrandsdóttur og Aldísi Ósk Davíðsdóttur og er sýnt á fjölum Tjarnarbíós. Trausti Ólafsson er leikhúsfræðingur og leikstjóri. Hann hefur kennt námskeið um leikhús og leikbókmenntir við Háskóla Íslands frá árinu 2004 og við Listaháskóla Íslands frá 2015. Trausti hefur gefið út bækur um leiklist bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur einnig birt greinar í ritstýrðum alþjóðlegum tímaritum auk greinaskrifa í íslenskum tímaritum.