Segir Lúkas ekki hafa verið í krossferð og krefst sýknu

Lögmaður Lúkasar Geirs Ingvarssonar krefst sýknu af ákæru um manndráp í Þorlákshafnarmálinu þar sem Hjörleifur Haukur Guðmundsson lést eftir að hafa verið numinn á brott af heimili sínu 10, mars. Honum hafði verið misþyrmt og hann skilinn eftir fáklæddur í Gufunesi þar sem hann fannst illa leikinn daginn eftir og lést skömmu síðar. Lögmaðurinn, Stefán Karl Kristjánsson, krefst einnig að Lúkasi verði gerð vægasta refsing fyrir aðrar ákærur, sem eru fyrir frelsissviptingu, fjárkúgun og rán. Þá er þess krafist að einkaréttarkröfur ekkju og sonar Hjörleifs Hauks heitins verði lækkaðar verulega. „Þetta er ljótt mál og það dregur það fram að í grunninn er heimurinn ekkert sérlega fallegur,“ sagði Stefán. Hann sagði að þeir áverkar sem Lúkas er talinn hafa veitt Hjörleifi hafi ekki valdið andláti hans. „Ef Hjörleifur hefði lifað þetta af, hefði þetta aldrei verið fellt undir tilraun til manndráps. Afhverju? Vegna þess að hugur aðila stóð aldrei til manndráps. Og því er ekki hægt að sakfella þá fyrir manndráp. Það hefði verið ákært fyrir stórfellda líkamsárás.“ „Þetta er kallað að beita andlegu kverkataki“ Stefán ræddi því næst hvernig Hjörleifur heitinn var ginntur af heimili sínu undir því yfirskyni að hann væri að hitta unga stúlku - en Lúkas hafði útbúið Snapchat aðgang þar sem hann þóttist vera stúlka að nafni Birta Sig og var tilgangurinn að hafa af honum fé. „Skjólstæðingur minn var ekki í neinni krossferð. Hann var í þessu til að verða sér úti um pening. Þetta er þekkt leið til að verða sér úti um pening. Það þarf ekki ofbeldi. Þetta er kallað að beita andlegu kverkataki,“ sagði Stefán verjandi um þann ásetning sem hann segir að umbjóðandi sinn hafi haft kvöldið 10. mars. „ Það má segja að allt sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis í þessu máli. Markmiðið var að ná sér í pening með kúgunum.“ Eins og risastór grjótharður jólapakki Verjandinn sagði að það, að þeir Lúkas, Matthías og Stefán hefðu farið með Hjörleif á fjölfarinn stað og skilið hann þar eftir bæri vott um að þeir hefðu ekki ætlað að ráða honum bana. „Ekki út úr borginni, þar sem hann myndi ekki finnast. Heldur inn í borgina. Og því er varhugavert að gera ráð fyrir að Lúkas hafi ætlað að bana brotaþola.“ Því næst gerði Stefán rannsókn lögreglu á málinu að umtalsefni og hafði sitthvað við hana að athuga. „Þetta er eins og risastór grjótharður jólapakki. Svo opnar maður hann og hann inniheldur náttföt. Þetta er svo illa unnið,“ sagði verjandinn og sagði meðal annars að fingrafararannsóknum hefði verið ábótavant. Þá hefði lítill sem enginn samanburður verið gerður á skóförum. Hann sagði að lögregla hefði fengið svo mikið af gögnum úr eftirlitsmyndavélum, meðal annars í bifreið Stefáns Blackburn sem Hjörleifur var ginntur upp í þetta kvöld, að hún hefði lítið þurft að aðhafast. „Lögregla var búin að fá þetta allt upp í hendurnar. Þetta var engin rannsókn, þetta voru bara náttföt.“ Voru ekki að skilja hann eftir til að deyja Hann sagði að ekkert í gögnum málsins benti til þess að Hjörleifi hafi verið hætta búin á að liggja úti heila nótt fáklæddur í Gufunesi. Hiti hafi verið yfir frostmarki. „Og afhverju skiptir þetta máli? Þeir eru ekki að skilja hann eftir í skítakulda. Þetta var ekkert í lagi, það er ekkert heilbrigt við þessar aðstæður. En þeir voru ekki að skilja hann eftir til að hann myndi deyja.“ Í framhaldi af þessu sagði Stefán skjóta skökku við að bráðaliðar, sem komu að Hjörleifi þar sem hann lá við göngustíg í Gufunesi, hafi ekki verið látnir gefa skýrslu. „Kannski, með annarri meðhöndlun. væri Hjörleifur enn á lífi. Með því er ég ekki að draga úr alvarleika þess sem gerðist. En þegar komið var að honum, þá andar hann,“ sagði Stefán. Þá gerði hann líka athugasemdir við lyf, sem Hjörleifur fékk á Landspítala eftir að hann fannst. „Það er ekki hægt að útiloka að þessir áverkar hafi orðið til vegna aðgerða lækna,“ sagði verjandinn og átti þar við hjartahnoð sem læknar beittu.