Fimm strangheiðarlegir rokkslagarar á föstudegi

Florence + The Machine – Everybody Scream Það verður að segjast að undirritaður er nú yfirleitt ekki hrifinn af því þegar tónlistarfólk er að setja leikhústilburði í lögin sín en það eru stundum undantekningar. Nýja lag Florence + the Machine, Everybody Scream, er ein af þeim. Þetta er titillagið á sjöttu plötu sveitarinnar sem kemur út í október. Spoon – Guess I'm Fallin In Love Þá liggur leiðin til Austin í Texas þar sem hljómsveitin Spoon er að dunda sér í rólegheitunum við að smíða næstu plötu sína og mögulega að hlusta á smá Can. Síðasta plata þeirra, Lucifer on the Sofa, frá 2022 var strangheiðarleg rokkplata og Guess I'm Fallin In Love gefur fyrirheit um að næsta verði það líka. Royel Otis – who's your boyfriend Ástralski indírokkdúettinn Royel Otis er á hraðri leið á toppinn eins og viðtökur við nýja laginu þeirra who's your boyfriend sýna. Lagið er af nýju plötunni þeirra, Hickey, sem kom út síðasta föstudag og er önnur breiðskífa þeirra. Alabama Shakes – Another Life Það eru komin tíu ár frá síðustu plötu Alabama Shakes, Sound & Color, og löngu tímabært að bandið hendi í aðra. Lagið Another Life, sem kom út í dag, er það fyrsta sem heyrist af henni en útgáfudagur hefur ekki verið tilkynntur. My Morning Jacket – Everyday Magic Lagið Everyday Magic er þannig séð ekki alveg nýtt af nálinni en það kom út fyrir þremur mánuðum og er búið að malla á rokkstöðvum í USA í sumar. Everyday Magic er grúví og flauelsmjúkur soft-rokkslagari tekinn af tíundu plötu sveitarinnar, Is. Fimman lagalisti