Vinnslustöðin segir upp 50 starfsmönnum

Vinnslustöðin hefur sagt upp 50 starfsmönnum sem hluta af hagræðingaraðgerðum til að mæta hækkun veiðigjalda. Þetta segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu. Þar segir að áætlað sé að hækkun veiðigjalda fyrirtækisins nemi 850 milljónum króna sem geri þau alls 1.450 milljónir króna á ári. „Fyrsta skrefið var að stöðva allar fyrirhugaðar framkvæmdir og kaup á nýjum skipum. Það eitt og sér dugir ekki til og því þarf að grípa til fleiri aðgerða. Stjórn Vinnslustöðvarinnar hefur því ákveðið að loka fiskvinnslunni Leo Seafood. Það er erfið en nauðsynleg ákvörðun. Við breytingarnar þarf félagið að grípa til uppsagna 50 starfsmanna,“ segir í yfirlýsingunni. Þá segir að launakostnaður hafi hækkað gríðarlega og sterk staða íslensku krónunnar hafi gert rekstur Leo Seafood erfiðan. Unnið hafi verið að hagræðingu í rekstri Leo Seafood í tvö ár sem ekki hafi borið árangur. Eftir lokun Leo Seafood verður hluti fisks sem þar er unninn unninn í saltfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar. „Áhrifin verða víðtæk og má benda á að launakostnaður Leo Seafood nam á síðasta ári 550 milljónum króna og verða ríkið og Vestmannaeyjabær af 122 milljónum við þessa aðgerð í formi útsvars og skatta,“ segir í yfirlýsingunni.