Reikna með að hefja kennslu í norðurálmu Sögu á næstu dögum

Kennsla getur hafist í öllum stofum í gamla Hótel Sögu á næstu dögum, segir sviðsstjóri framkvæmda hjá Háskóla Íslands. Aðeins hefur fengist leyfi fyrir starfsemi í norðurálmu hússins. Ríkið og Félagsstofnun stúdenta keyptu þessa sögufrægu byggingu undir lok árs 2021. Gamla Hótel Saga, sem nú heitir einfaldlega Saga, er ætlað menntavísindasviði Háskólans, auk þess sem þar eru stúdentaíbúðir. Í gær sagði fréttastofa frá því að Umhverfis- og orkustofnun hefði veitt skólanum bráðabirgðastarfsleyfi í norðurálmunni en syðri hlutinn teldist ekki tilbúinn og viðeigandi gögn vantaði. Segja bygginguna uppfylla öll skilyrði Framkvæmdirnar reyndust tímafrekari en talið var í fyrstu. Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála, segir að suðurálman sé á allra síðustu metrunum og á von á að bráðabirgðaleyfi fáist á næstu dögum. Byggingin uppfyllir að hans sögn öll skilyrði um hollustuhætti- og mengunarvarnir en auglýsingartími hafi flækst fyrir. Þurft hefði meiri fyrirvara, umsókn um starfsleyfi þurfi að auglýsa í nokkrar vikur áður en það er samþykkt að fullu. Þar til bráðabirgðaleyfi fæst fyrir suðurálmu má reikna með röskun á kennslu 2500 nema á menntavísindasviði. Kennslu sem átti að vera í suðurálmu verður dreift á lausar stofur á háskólasvæðinu. Einhver bið verður líka eftir hinu landsfræga Grilli, sem þurfti að endurbyggja, og framkvæmdir við kjallara standa væntanlega út árið. „Gert er ráð fyrir að stærsti hluti húsnæðisins verði tekið í notkun á næstu tveimur mánuðum að hinu landsfræga Grilli undanskildu en vinna að nýju hlutverki þess mun taka lengri tíma. Einnig munu framkvæmdir á kjallara standa út árið, en þar verða m.a. aðstaða smíði og hönnunar ásamt hreyfirannsóknastofu, en þar hleypa ljósgarðar nú birtu inn á svæði sem áður hýsti dimmar geymslur“, segir í tilkynningu frá HÍ. Langþráður áfangi að flytja inn í Sögu En byggingin er biðarinnar virði, að sögn deildarstjóra Menntavísindasviðs. „Flutningur Menntavísindasviðs í Sögu er langþráður áfangi sem hefur verið stefnt að frá því að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinuðust árið 2008,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs í tilkynningu á vef háskólans.