Stórfelldur laxadauði vegna þörungablóma í Berufirði

Þörungablómi drap vel yfir 200 þúsund eldislaxa í Berufirði í júlí. Kaldvík segir þetta áfall og ætlar að herða mjög eftirlit og sjósýnatöku og breyta fóðrun þegar ákveðnar tegundir þörunga eru við yfirborð sjávar. Tvær bylgjur þörungablóma Þörungar taka að vaxa og fjölga sér hratt í sjónum þegar sólarljós eykst á vorin og laxeldisfyrirtæki þurfa að búa sig undir tvær bylgjur þörungablóma. Fyrst í maí þegar mikil næring er fyrir þörunginn sem hjaðnar í júní þegar hann hefur étið upp. Í júlí getur blóminn vaxið aftur. Þetta olli miklu tjóni hjá Kaldvík í Berufirði í sumar. Tölur um laxadauða í júlí eru nýbirtar í mælaborði Fiskeldis og kemur í ljós að yfir 236 þúsund laxar drápust í firðinum eða yfir 16% af fiskinum. Það var lax sem átti að slátra í haust og vetur og fóru mikil verðmæti í súginn. Matvælastofnun staðfestir að þetta hafi verið vegna þörungablóma. Ákveðnar tegundir þörunga eru skæðar, geta sest í tálkn fiskanna og líka étið upp súrefni úr sjónum. „Þetta ýtir á okkur að fylgjast betur með“ „Þetta var áfall fyrir fyrirtækið að lenda í þessu en þessi þörungablómi er til staðar á sumrin og við höfum brugðist við með ýmsum hætti. Til að mynda með því að taka örar sjósýni og auka fræðslu hjá starfsfólkinu um hvernig á að vinna úr þeim sýnum og greina þá mögulega að fyrirbyggja að þetta gerist aftur. Það sem er hægt að gera er að koma í veg fyrir að fiskurinn komi upp í yfirborðið í þennan þörungablóma. Til dæmis með því að breyta fóðrun, draga úr henni eða jafnvel að sleppa því að fóðra, þannig að fiskurinn komi ekki alveg upp í yfirborðið. Við fylgjumst með súrefni, fóðrun og öðru slíku, sjóndýpi og öðru slíku. En því miður var bara burðist of seint við og því fór sem fór. Menn þurfa bara að vera á tánum með þetta og þetta ýtir á okkur að fylgjast betur með. Við bara lærum af reynslunni,“ segir Kristján Ingimarsson, öryggis- og fræðslustjóri hjá Kaldvík. Fiskur sem drepst í eldikvíum er unninn í svokallaða meltu en þá er hann hakkaður, maurasýru bætt saman við og hann seldur úr landi meðal annars til áburðarframleiðslu. Þessi nýting skilar ekki hagnaði eins og nú háttar til heldur þurfa eldisfyrirtæki að standa straum af kostnaði við að losna við dauðfiskinn með þessum hætti.