Sérfræðingur héraðssaksóknara með stöðu sakbornings í PPP-rannsókn

Sérfræðingur hjá héraðssaksóknara er með stöðu sakbornings í rannsókn tengdri starfsemi PPP ehf. og meintum brotum á þagn­ar­skyldu og öðrum starfs­skyld­um hjá embætti héraðssaksóknara, áður sérstaks saksóknara. Morgunblaðið greinir frá því að starfsmaðurinn hafi starfað fyr­ir embættið í á ann­an ára­tug og hafi verið kallaður til yf­ir­heyrslu hjá lög­regl­unni á Sel­fossi þann 19. júní. Blaðið kveðst hafa gögn undir höndum sem staðfesti þetta. RÚV fjallaði í vor um starfsemi PPP ehf. njósnafyrirtækis sem Jón Ótt­ar Ólafs­son og Guðmundur Haukur Guðmunds­son, þáverandi starfsmenn sérstaks saksóknara, stofnuðu árið 2011. Þar kom fram að þeir hafi stundað njósnir ásamt lögreglumanninum Lúðvíki Kristinssyni fyrir Björgólf Thor Björgólfsson um hóp fólks sem stefndi honum á sínum tíma. Grunur er um að Jón Óttar og Guðmundur Haukur hafi nýtt sér gögn sem þeir höfðu aðgang að hjá sérstökum saksóknara til þess að njósna um fólkið. Í kjölfar umfjöllunar RÚV kærði Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari Jón Óttar fyrir ætluð brot á þagnarskyldu og öðrum starfsskyldum. Það hafði hann áður gert en málið var þá fellt niður. Jón Óttar var handtekinn í kjölfarið og húsleit gerð á heimili hans, en Guðmundur Haukur er látinn.