Utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar fordæma harðlega nýjar hernaðaraðgerðir Ísraels á Gaza og boðuð áform um varanlega viðveru ísraelskra hermanna í Gaza-borg. Í sameiginlegri yfirlýsingu lýsa ráðherrarnir hryllingi sínum yfir hungursneyð sem ríki á Gaza, sem var staðfest í þessari viku. Þeir krefjast þess að ísraelsk stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar á grundvelli alþjóðamannúðarlaga. Ráðherrarnir lýsa einnig miklum áhyggjum sínum af útvíkkun landtökubyggða á Vesturbakkanum en þær eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum. Er kallað eftir því að ísraelsk stjórnvöld snúi ákvörðun sinni við í þessum efnum. Þá er kallað eftir lausn allra gísla á Gaza og flæði mannúðaraðstoðar inn á Gaza.