Hafrannsóknarstofnun hafa samtals borist 22 laxar og sýni úr þeim send til erfðagreiningar. Af þessum eru sjö staðfestir eldislaxar og 15 reyndust villtir. Eldislaxarnir veiddust í Haukadalsá, Hrútafjarðará, Vatnsdalsá og Miðfjarðará. Tilkynningar hafa borist um sex laxa til viðbótar sem líta út fyrir að vera eldislaxar. Verið er að rekja uppruna eldislaxanna og enn benda niðurstöður til sameiginlegs uppruna sex laxa úr Dýrafirði, hvar Arctic Fish er með sjókvíar sínar. Svo virðist sem einn staðfestur eldislax hafi annan uppruna og rannsókn er hafin á uppruna þess fisks. Matvælastofnun, Fiskistofa og Hafrannsóknarstofnun starfa áfram saman að rannsókn málsins og veita upplýsingar þegar frekari niðurstöður liggja fyrir. Stofnanirnar biðja veiðimenn um að hafa augun opin fyrir eldiseinkennum á veiddum löxum og skili þeim í heilu lagi til Hafrannsóknarstofnunar til rannsókna og erfðagreiningar, ef grunur liggur á um að laxinn sé úr eldi.