Brynjar Sigurgeir Kristjánsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir það sorglegt og ömurlegt að fyrirtækið þurfi að loka Leo Seafood og segja upp starfsmönnum vinnslunnar. Fyrirtækið hafi þurft að grípa til aðgerðanna til að halda áfram rekstri og stuðla að góðu atvinnulífi í Vestmannaeyjum. Hann útilokar ekki að hluti aflans, sem unnin hefur verið í Leo Seafood, kunni í framtíðinni að vera unninn í vinnslu fyrirtækisins í Portúgal. Fimmtíu starfsmönnum Vinnslustöðvarinnar í vinnslu Leo Seafood í Vestmannaeyjum hefur verið sagt upp störfum. Í yfirlýsingu frá Vinnslustöðinni segir að endurskoða hafi þurft reksturinn vegna hækkunar veiðigjalda sem samþykkt var á Alþingi í sumar. Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum, segir mörgum spurningum enn ósvarað. Það er einkum hvort aflinn sem unninn hefur verið í Leo Seafood verði áfram unninn í Eyjum og hvort starfsfólk Leo Seafood verði mögulega endurráðið í störf í saltfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar. „Við þurfum að borga skuldir og við þurfum að halda fyrirtækinu gangandi“ Hjá Vinnslustöðinni starfa liðlega 420 manns. Gróflega áætlað eru þar af um 330 í Vestmannaeyjum en um tvö hundruð þeirra starfa í landi. Miðað við það hefur um fjórðungi starfsmanna Vinnslustöðvarinnar sem starfa í landi í Eyjum verið sagt upp. Brynjar segir alla möguleika verða skoðaða til að hjálpa þeim sem sagt er upp að finna sér nýja atvinnu. Meðal annars verði skoðað hvort hægt sé að flytja hluta þeirra til saltfiskvinnslu fyrirtækisins í Eyjum. Fyrirtækið taki áhættu á að glata þekkingunni og reynslunni sem fráfarandi starfsmenn, sem lengi hafa starfað hjá fyrirtækinu, búi yfir. „En þetta er okkur falið. Það er verið að leggja á okkur 850 milljónir í veiðigjöld og einhvern veginn verðum við að ná vopnum okkar í því að spara. Við þurfum að borga skuldir og við þurfum að halda fyrirtækinu gangandi og það er engin launung í því að við keyptum Ós og Leo Seafood fyrir um það bil þremur árum. Þá jukust skuldir félagsins talsvert. Við höfðum ekki áhyggjur af því, ætluðum að keyra félögin áfram og gerðum ráð fyrir því að reka bæði Leo Seafood og halda útgerð togarans áfram,“ segir Brynjar í samtali við fréttastofu. „Við getum ekki látið félagið fljóta sofandi að feigðarósi“ Brynjar segir aðstandendur Vinnslustöðvarinnar hafa reiknað út hver áhrif hækkun veiðigjalda á fyrirtækið yrðu. Bæði hafi verið reiknað út hve mikil hækkun væri í vændum og hvaða hagræðingaraðgerð myndi leiða til mests sparnaðar. „Hún fólst í því að leggja af starfsemina í Leo Seafood. Aðalsparnaðurinn felst í lækkun launakostnaðar. Við segjum að þetta séu 400 hundruð milljónir en þetta eru á bilinu 350 til 500 milljónir og við þurfum að skoða aðra möguleika – við náum aldrei 850 milljónum. Eitthvað af þessum fjármunum lendir á Vinnslustöðinni en við getum ekki látið félagið fljóta sofandi að feigðarósi. Þetta er bara sorgleg stund og ömurleg,“ segir Brynjar. Hann segir félagið verða að grípa til frekari aðgerða og ná vopnum sínum, svo það geti staðið í skilum og verið undirstaða atvinnu í Vestmannaeyjum. Frekari aðgerðir felist þó ekki í fjöldauppsögnum og allir möguleikar verði teknir til skoðunar. Forseti bæjarstjórnar vonar að hægt verði að endurráða starfsfólkið Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum, segir Vinnslustöðina hafa gert bæjarstjórn viðvart um að uppsagnir væru í aðsigi í gær. Hann segir lokun Leo Seafood vera slæm tíðindi, einkum og sér í lagi fyrir það fólk sem um ræðir og fjölskyldur þess. „Það er hins vegar mörgum spurningum varðandi þetta mál ósvarað og það er kannski rétt að bíða með stórar ályktanir þar til það fást svör við þeim. Kannski aðallega þeirri spurningu hvort að það sé ekki örugglega tryggt að þessi afli sem hér um ræðir, og hefur hingað til verið unninn í Leo Seafood, verði áfram unninn í Vestmannaeyjum. Hvort að Vinnslustöðin sé ekki fyrst og fremst að leita eftir þeirri hagræðingu sem hugsanlega fælist í því að vera með alla bolfiskvinnsluna á einum stað en ekki á tveimur,“ segir Páll í samtali við fréttastofu. Það verði að svara þeirri spurningu hvort Vinnslustöðin sé ekki fyrst og fremst að leitast eftir þeirri hagræðingu sem felist í því að vera með alla bolfiskvinnsluna á einum stað en ekki tveimur. „Ef sú er raunin, sem við auðvitað treystum, að þessi afli verði áfram unninn í Vestmannaeyjum þá geri ég náttúrulega ráð fyrir því að það þurfi fólk til að vinna hann og hugsanlega verði þá fólkið endurráðið í stöður hjá Vinnslustöðinni því varla ætla þeir með þennan afla til vinnslu annars staðar í Vestmannaeyjum. Ég trúi því ekki. Hluti fisksins sem unninn hefur verið í Eyjum kann að rata í vinnslu í Portúgal Brynjar segir að hluti fisksins sem unninn hefur verið í vinnslu Leo Seafood komi til söltunar í saltfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar. Umtalsvert magn muni líka fara á fiskmarkað. Vinnslustöðin á fyrirtæki í Portúgal sem þurrkar saltfisk og Brynjar segir mögulegt að hluti fisksins rati í þá vinnslu. „Við höfum þá bara með hefðbundnum hætti saltað fiskinn hérna og gert þetta eins og vaninn var. Síðan er það þannig að fiskurinn hefur verið fluttur út, eins og venja hefur verið, og þurrkaður þar – þar sem við höfum tengsl við veitingahús og stórmarkaði og erum að vinna með þeim. Auðvitað munum við skoða þann feril,“ segir Brynjar. Brynjar segir fyrirtækið hafa prófað að vinna fisk í Portúgal en það hafi ekki skilað sömu gæðum. „Fiskur hér heima er saltaður þriggja eða fjögurra daga gamall, þegar hann er búinn að fara í gegnum dauðastirðnunina, og er þá ferskastur og bestur en þegar hann er kominn til Portúgal er hann orðinn fjórtán dögum eldri. Það er auðvitað þannig að sá fiskur er ekki jafngóður og sá sem er unninn hérna á Íslandi. En það getur vel verið að kostnaður, álögur og allt það sem að hefur áhrif á okkur í gegnum skattlagningu leiði til þess að við þurfum að færa hluta af fiskvinnslunni til útlanda eða breyta einhverju.“