Lögmaður tvítugrar stúlku, sem ákærð er fyrir aðild að frelsissviptingu og ráni í Þorlákshafnarmálinu krefst sýknu, til vara að henni verði gerð vægasta mögulega refsing. Þá krefst hann að bótakröfur í einkaréttarkröfu verði lækkaðar og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Stúlkan hringdi í Hjörleif Hauk Guðmundsson heitinn, karlmann á sjötugsaldri og lokkaði hann út af heimili sínu í Þorlákshöfn og í bíl þar sem fyrir voru Stefán Blackburn og Lúkas Geir Ingvarsson, sem ákærðir eru fyrir manndráp í málinu. Ákæruvaldið fer fram á að hún sæti 24 mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði óskilorðsbundið. Í ræðu Karls Inga Vilbergssonar, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara í morgun þar sem hann útskýrði forsendurnar á bak við þessa kröfu sagði hann að hún hefði átt að vita að til stóð að hafa fé af Hjörleifi með ólögmætum hætti og að hann yrði líklega beittur harðræði af einhverju tagi. „Hún veit alveg út á hvað leikurinn gengur,“ sagði saksóknari. Háttsemi hennar fælist í hlutdeildarbroti. Elimar Hauksson lögmaður stúlkunnar sagði í ræðu sinni við aðalmeðferð málsins í dag að gögn staðfesti að hún hafi aldrei átt samskipti við Hjörleif heitinn á Snapchat, á fölsuðum aðgangi þar sem Lúkas Geir hafði stofnað undir nafninu Birta Sig. Hennar einu samskipti við Hjörleif hafi verið símleiðis. Framburður studdur framburði annarra Elimar sagði að framburður stúlkunnar sé studdur framburði annarra sakborninga, einkum þeirra Lúkasar Geirs og Stefáns. Þá styðji frumgögn málsins við framburð hennar. Elimar sagði að hún hefði haft takmarkaða vitneskju um það sem til stóð, hún hafi ekki vitað að hann yrði frelsissviptur og beittur ofbeldi. „Hún hélt að til stæði að afhjúpa kynferðisleg samskipti hins látna við börn,“ sagði Elimar sem benti á að hún hefði ekki verið á staðnum þegar Hjörleifur var frelsissviptur. „Það er ekkert sem bendir til að henni hafi verið það ljóst, eða hún hafi látið það sér í léttu rúmi liggja.“ „Verði hún fundin sek verði brot hennar metin smávægileg og dæma refsingu hennar lægri en refsing við brotum þeim sem hún er ákærð fyrir kveður á um,“ sagði verjandinn Elimar í lokin.