Það er kominn tími til að Reykjavíkurborg nýti heimildir sínar til að knýja fram umbætur á húsum í niðurníðslu, segir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs. Íbúasamtök í miðborginni hafa gagnrýnt aðgerðaleysi í stjórnvalda í málaflokknum. Formaður Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur gagnrýndi aðgerðaleysi borgarinnar í kvöldfréttum sjónvarps í gær. Ónýt hús hafi staðið auð og grotnað niður í áratugi og af þeim skapast slysahætta. „Viljum bara fara að sjá uppbyggingu fara af stað“ Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir ýmsar ástæður liggja að baki. „Þetta eru ólík hús með ólíkar forsendur og ólíkar aðstæður að baki. Eins og til dæmis í Borgartúninu þar liggja fyrir samþykktar deiliskipulagsbreytingar, þarna á að byggja íbúðir og nú er komin niðurrifsheimild ef ég man rétt og verið að vinna að byggingaráformum. Þannig að við viljum bara fara að sjá uppbyggingu fara af stað þarna.“ Eftirfylgnin er borgarinnar Eigendur og lóðahafar bera ábyrgð á því að hætta stafi ekki af fasteignum, segir Ólöf. „Og auðvitað líka að af þeim stafi ekki ami í umhverfinu þannig að sjálfsögðu er ábyrgðin þeirra en eftirfylgnin er okkar og regluverkið. Þannig að við eigum þá að sinna því að knýja fram úrbætur og þá jafnvel að fara í þær úrbætur á kostnað lóðahafa. Við höfum heimildir þegar ástandið skapar hættu sem oft gerist þegar niðurnísla og vanræksla er mikil þannig að það er bara algjörlega kominn sá tímapunktur.“ Og er þá kominn tími á það núna að gera rassíu í þessu? „Já það finnst mér. Ég ætla bara að taka þetta upp núna með mínu fólki og við setjum bara eitthvað ferli í gang hið snarasta,“ segir Ólöf.