Gaza-borg skilgreind sem vígvöllur

Ísraelsher skilgreindi Gaza-borg í dag sem vígvöll. Með þessu bindur herinn enda á reglubundið hlé á árásum til að koma þangað hjálpargögnum. Fimm hafa orðið hungurmorða á Gaza síðasta sólarhringinn og yfir 63 þúsund látist í stríðinu, samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu. Yfir 300 hafa dáið úr hungri síðan stríðið byrjaði. Ísraelsherinn undirbýr allsherjarsókn til að ná Gaza-borg á sitt vald eftir tæplega tveggja ára stríð. Borgin er sú stærsta á Gaza og talið er að um milljón manns haldi til þar. Margir eru of veikburða til að flýja. Stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna lýsti nýverið yfir hungursneyð í borginni. Þetta er í fyrsta sinn sem stofnunin staðfestir formlega hungursneyð í Mið-Austurlöndum. Sérfræðingur hennar segir hálfa milljón manna standa frammi fyrir lífshættulegu hungri. Tom Fletcher, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að hægt hefði verið að afstýra hungursneyðinni hefði þeim verið leyft að flytja hjálpargögn óhindrað inn á Gaza. Stjórnvöld í Ísrael segja ákvörðunina byggða á „ „lygum Hamas-samtakanna“. Um 2000 starfsmenn mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna skrifuðu undir bréf í dag, þar sem yfirmaður hennar, Volker Türk, er hvattur til að kalla hernað Ísraela á Gaza þjóðarmorð. Starfsfólkið segir skýrslur bæði stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna og óháðra sérfræðinga sýna fram á að skilyrði fyrir notkun hugtaksins samkvæmt lagalegri skilgreiningu séu uppfyllt. Þrýstingur hefur vaxið, bæði í Ísrael og hjá alþjóðasamfélaginu, að stjórnvöld bindi enda á stríðið á Gaza.