Bæklunarlæknir hætti á Landspítalanum eftir vafasamar uppflettingar í sjúkraskrám

Það vakti nokkra athygli þegar greint var frá úrskurði Persónuverndar í máli læknis á Landspítalanum á vefmiðlum í gærkvöld. Hann var sagður hafa nýtt sér aðgang að sjúkraskrárkerfi Landspítalans til að afla sér fjárhagslegs ávinnings með því að beina sjúklingum í viðskipti við einkarekið fyrirtæki sem hann starfaði jafnframt hjá. Þetta var hann sagður hafa gert með smáskilaboðasendingum til þeirra í gegnum kerfi Landspítalans. Aðrar upplýsingar um málið voru litlar, það mátti þó að lesa að þetta mál hefði einnig ratað á borð Landlæknisembættisins. Tengist átökum um liðskiptaaðgerðir Persónuvernd birtir jafnan alla úrskurði í heild en þegar það er ekki gert er það sökum þess að stofnunin telur sig ekki geta það án þess að upplýsa um leið hverjir málsaðilar eru. Niðurstaða Persónuverndar var að ekki hefði verið lagaheimild fyrir þessum uppflettingum læknisins í sjúkraskrám þótt hann hefði sjálfur byggt á því að hún hefði farið fram í umboði Landspítalans. Málið tengist hörðum átökum um liðskiptaaðgerðir eftir útboð Sjúkratrygginga fyrir tveimur árum. Þar voru miklir fjármunir í húfi en fyrir hverja aðgerð fengu læknar greidda rúma milljón. Umræddur læknir er bæklunarskurðlæknir, þykir einn sá fremsti á sínu sviði. 194 sjúklingar fengu skilaboð Í svari við fyrirspurn Spegilsins segir Landspítalinn að mál bæklunarlæknisins hafi verið tekið fyrir hjá eftirlitsnefnd um rafræna sjúkraskrá eftir ábendingar um hugsanlegan óheimilan aðgang að sjúkraskrám. Nefndin skilaði áliti í ágúst fyrir tveimur árum og komst að þeirri niðurstöðu að læknirinn hefði með athæfi sínu farið út fyrir heimildir sínar, samkvæmt lögum um sjúkraskrá. Málið var að lokum sent til framkvæmdastjóra lækninga. Læknirinn, sem var í hlutastarfi á spítalanum, ákvað í framhaldinu að láta af störfum. Í svari spítalans segir að 194 sjúklingar hafi fengið send skilaboð með þessum hætti. Landlæknir rannsakaði málið Í úrskurði Persónuverndar kom fram að landlæknisembættið hefði líka skoðað þetta mál. Í svari frá embættinu segir að málið hafi borist 2023 og verið rannsakað sem eftirlitsmál. Þeirri rannsókn lauk í janúar á þessu ári en landlæknisembættið telur sig ekki hafa heimild til að upplýsa frekar um málið né niðurstöðu rannsóknarinnar. Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að landlæknisembættið hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið lagaheimild til uppflettinga læknsins í sjúkraskrám en Landlæknir vildi ekki afhenda Speglinum niðurstöðu sína né úrdrátt úr henni. Ríkið samdi við tvö fyrirtæki þegar liðskiptaaðgerðirnar voru boðnar út fyrir tveimur árum en aðeins eitt þegar gengið var frá samningum á þessu ári - Klíníkina. Telur sig ekki hafa gert neitt ólöglegt Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Spegilsins að þetta mál hafi ekki haft áhrif á ákvörðun þess að semja ekki við hitt fyrirtækið. Tilboð þess hafi einfaldlega ekki uppfyllt skilyrði hvað varðar efni og skýrleika og það því verið metið ógilt. Ákvörðun Sjúkratrygginga hefur verið kærð til kærunefndar um útboðsmál. Umræddur lækniri segir í samtali við Spegilinn að hann telji sig ekki hafa gert neitt ólöglegt. Þetta hafi verið sjúklingar sem hafi verið vísað á Landspítalann, verið á biðlistum lækna spítalans sem síðan hafi beðið stofuna sem hann vann hjá að vinna niður langan biðlista hjá þeim. Þetta hafi aldrei verið neitt pukur eða leyndarmál. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Óljóst hvaða reglur giltu Fréttaskýringaþátturinn Þetta helst fjallaði um þessar hörðu deilur í vikunni. Þar kom meðal annars fram að Klíníkin hefði verið mjög ósátt þegar Sjúkratryggingar sömdu við hitt fyrirtækið á sínum tíma; þar hefðu starfað læknar á Landspítalanum sem hefðu haft samband við sjúklinga á biðlistum bækunarskurðlækna spítalans í gegnum sms-skilaboð í kerfum Landspítalans. Þetta taldi Klínikin vera misnotkun á aðstöðu og að hún hefði orðið af mögulegum tekjum. 194 sjúklingar fengu skilaboð í gegnum kerfi Landspítalans eftir að bæklunarlæknir í hlutastarfi fletti þeim upp í sjúkraskrá. Þetta voru allt sjúklingar að bíða eftir liðskiptaaðgerð og þeim boðið að koma í skoðun á stofu sem læknirinn starfaði á. Í þættinum var rætt við Hjört Hjartason, forstöðulæknir sérgreinalækna á Landspítalanum, þar sem hann lýsti þeim mistökum sem hann taldi að hefðu verið gerð í útboðinu fyrir tveimur árum. Skort hefði á samráð og undirbúning og því verið ákveðin ringulreið í kerfinu og þá hvernig sjúktratryggðir sjúklingar kæmust í liðskiptaaðgerðir með kostnaðarþátttöku ríkisins. Í þættinum viðurkenndi Hjörtur að það hefðu komið upp hagsmunaárekstara á Landspítalanum þar sem það hefði verið óljóst hvaða reglur giltu. „ „Eftir liðskiptaútboðið breyttist þetta, skilin voru ekki eins skörp. Það var farið að gera aðgerðir, sem áður voru aðeins gerðar á spítalanum, úti á stofum. Það hefur hugsanlega getað leitt til aukins flækjustigs og jafnvel einhverra hagsmunaárekstra,“ sagði Hjörtur.