Útgjöld til hernaðar hjá rússneskum stjórnvöldum hafa þrefaldast frá upphafi allsherjar innrásarstríðsins í Úkraínu fyrir þremur árum. Hlutfall þess sem varið er til varna þjóðarinnar hefur ekki verið hærra síðan á Sovéttímanum, samkvæmt nýrri skýrslu þýskrar alþjóða- og öryggisstofnunar . Útgjöld til varnarmála þrefaldast frá innrásinni 2022 Fyrri hluta ársins námu herútgjöld Rússa um hundrað milljörðum bandaríkjadala, sem eru rúmlega 12 þúsund milljarðar íslenskra króna. Samkvæmt skýrslunni eyða Rússar að meðaltali rúmlega 500 milljónum bandaríkjadala á hverjum degi, sem nemur rúmlega 63 milljörðum króna. Það er meira en útgjöld sumra fátækra héraða Rússlands á ári. Útgjöld til varnarmála hafa aukist um nærri þriðjung samanborið við síðasta ár og frá upphafi allsherjar innrásarstríðsins árið 2022 hafa útgjöldin þrefaldast. Ekki á dagskrá að minnka hernaðarútgjöld Hernaðarútgjöld eru orðin stærsta forgangsverkefnið í rússneskum fjárlögum. Hlutfall sem varið er til varna þjóðarinnar hefur ekki verið hærra síðan á Sovéttímanum, samkvæmt skýrslunni. Stærsti hluti útgjaldanna er ekki opinber og hefur vaxið hratt síðustu ár, eftir að stríðið í Úkraínu hófst. Reuters hefur eftir heimildarmanni innan rússnesku stjórnarinnar að þrátt fyrir að vopnahlé og friðarsamkomulag náist í Úkraínu sé það ekki á dagskrá hjá stjórnvöldum að minnka hernaðarútgjöld. Hann segir niðurskurðar fyrst að vænta eftir tvö ár en ólíklegt er að útgjöldin verði lægri en fyrir innrásina í Úkraínu.