Krefst sýknu og segir sakborning einn af okkar minnstu bræðrum

Lögmaður 18 ára pilts, sem ákærður er fyrir peningaþvætti í Þorlákshafnarmálinu fer fram á að hann verði fundinn sýkn saka. Hann krefst að litið verði á brotið sem gáleysisbrot en ekki ásetningsbrot. Ennfremur að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði Pilturinn bar við aðalmeðferð á mánudaginn að hann hefði verið hræddur við þremenningana sem ákærðir eru fyrir manndráp í málinu; þá Lúkas Geir Ingvarsson, Stefán Blackburn og Matthías Björn Erlingsson og ekki þorað öðru en að gera eins og þeir sögðu þegar þeir báðu um bankaupplýsingar hans til að geta lagt þangað inn þrjár milljónir sem þeir höfðu af Hjörleifi Hauk Guðmundssyni - sem lést eftir að hafa sætt barsmíðum og skilinn eftir í Gufunesi. Saksóknari sagði ljóst að hann hefði tekið við fénu af fúsum og frjálsum vilja, af mönnum sem honum hefði mátt vera ljóst að hefðu fé af fólki með ólögmætum hætti. „En hann hafði val og kaus og gefa upp bankaupplýsingar sínar af fúsum og frjálsum vilja. Hann hefði getað snúið sér til foreldra sinna, til lögreglu. En hann ákvað að láta til leiðast,“ sagði saksóknari. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður piltsins, sagði í ræðu sinni í munnlegum málflutningi lögmanna við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi Suðurlands í dag óyggjandi að pilturinn hefði verið sofandi þegar féð var lagt inn á reikning hans. Það lægi ljóst fyrir að hann hefði ekki vitað í hvaða tilgangi hann var beðinn um að gefa þremenningunum upp bankaupplýsingarnar. „Hann hafði beint samband við lögregluna, lét vita að hann hefði tekið á móti þessum fjármunum og síðast en ekki síst leiddi þessi snögga upplýsingagjöf til þess að lögregla endurheimti féð. Það var eingöngu vegna árvekni hans,“ sagði Vilhjálmur. Einn af okkar minnstu bræðrum Hann sagði að piltinum hefði verið hótað heimsóknum þremenninganna léti hann ekki að vilja þeirra. „Þegar við horfum í baksýnisspegilinn hljótum við að velta fyrir okkur hvort ákærði hafi ekki með réttu mátt hafa áhyggjur af heilsu sinni og velferð og fjölsyldu sinna,“ spurði Vilhjálmur. Síðan svaraði hann eigin spurningu: „Já, já, já og aftur já.“ Vilhjálmur sagði að pilturinn væri einn af okkar minnstu bræðrum. Hann væri með ýmsar greiningar, asperger, ADHD, hann ætti erfitt með að mynda vinasambönd og legði sig í líma við að gera öðru fólki til hæfis. Hann vísaði í skýrslur sálfræðings þessu til stuðnings. „Allt þetta gerði það að verkum að ákærði varð útsettari fyrir að það væri pönkast á honum og hann léti undan vegna stöðu sinna og haga og vegna þeirra greininga sem hann er með.“ Vilhjálmur sagði í ræðu sinni að umbjóðanda sínum hefði ekki verið getað verið kunnugt um hvaða meðferð Hjörleifur heitinn sætti kvöldið 10. mars þegar hann var sviptur frelsi við heimili sitt í Þorlákshöfn.