Atvinnuvegaráðherra: „Nærtækara að líta til reksturs og þess sem hefur gengið á frekar en þess sem mun verða“

Fimmtíu starfsmönnum Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hefur verið sagt upp. Fyrirtækið ber meðal annars við hækkun veiðigjalds en atvinnuvegaráðherra bendir á að hún taki ekki gildi fyrr en um áramót. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum ætlar að loka fiskvinnslunni Leo Seafood í hagræðingarskyni og var öllum starfsmönnum sagt upp. Rekstur vinnslunnar hefur verið þungur síðustu ár og segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri, að launahækkanir og sterkt gengi krónu hafi þyngt róðurinn. Ofan á það leggist fyrirhuguð hækkun veiðigjalds. „Sparnaðurinn felst í lækkun launakostnaðar. Og við segjum að þetta séu 400 milljónir. Þetta er á bilinu 350 til 500 milljónir. Og við þurfum að skoða aðra möguleika. En við getum ekki látið félagið fljóta sofandi að feigðarósi. Við þurfum að grípa til aðgerða og ná vopnum okkar svo við getum staðið í skilum og verið undirstaða atvinnu í Eyjum. Þetta er sorgleg stund og ömurleg,“ segir Sigurgeir. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, segir fregnir af uppsögnum starfsmanna Vinnslustöðvarinnar erfiðar. Eitt af því sem liggi til grundvallar hækkuninni sé að afkoma sjávarútvegs sé betri en í öðrum atvinnugreinum. Það sé því eðlilegt að hluti hennar renni til þjóðarinnar í formi veiðigjalda. „Svona ákvarðanir, að loka fyrirtæki og segja upp tugum starfsmanna er ekki ákvörðun sem er tekin yfir nótt. Hún eigi sér langan aðdraganda. Það liggur bara fyrir. Það er kannski í þessu tilfelli og mögulega öðrum sem koma upp, nærtækara að líta til reksturs viðkomandi fyrirtækja og þess sem á hefur gengið frekar en þess sem að mun verða. Því þessi veiðigjöld eru ekki komin til framkvæmda fyrr en á næsta ári.“ Hún hafnar því að greiningarvinnan við vinnslu frumvarpsins hafi verið ófullnægjandi eins og gagnrýnt var í þinglegri meðferð málsins. „Á öllum þeim árum sem liðin eru frá því lög um veiðigjöld voru fyrst sett hefur þeim verið breytt oft. Og ég ætla að leyfa mér að halda því fram að sú greiningarvinna sem unnin var núna við vinnslu þessa frumvarps sé meiri en samanlögð sú greiningarvinna sem hefur átt sér stað í fyrndinni við þetta mál.“