Samdráttur fimm af síðustu sjö ársfjórðungum

Fyrsta mat Hagstofu Íslands á landsframleiðslu í vor og sumarbyrjun gefur til kynna að 1,9 prósenta samdráttur hafi orðið frá sama tíma í fyrra. Mjög hefur hægt á efnahagslífinu síðustu misseri. Það sést á því að frá því í árslok 2023 hefur orðið samdráttur fimm af sjö ársfjórðungum. Hagvöxtur hefur aðeins mælst tvo ársfjórðunga á þessum tíma og í annað skiptið var hann aðeins 0,2 prósent, í fyrravor. Fyrsti ársfjórðungur þessa árs var reyndar sá besti af síðustu sjö, en þá mældist 2,7 prósenta hagvöxtur. Það þýðir að á fyrri hluta árs mælist 0,3 prósenta hagvöxtur. Þó ber að hafa í huga að útreikningar á landsframleiðslu breytast eftir því sem nýrri og nákvæmari upplýsingar berast Hagstofu. Utanríkisviðskipti áttu stærstan þátt í samdrættinum því halli á vöru- og þjónustuviðskiptum jókst milli ára.