Akureyrarveikin reið yfir veturinn 1948-9 og um 1.000 manns veiktust á Akureyri. Veikin dreifðist svo um landið norðan- og vestanvert og náði einnig til Reykjavíkur. Sýni tekin á Akureyri 1949 og send til rannsóknar í Bandaríkjunum Miðað við einkennin hélt fólk í fyrstu að þetta væri lömunarveiki, eða mænuveiki. „En það fóru að renna tvær grímur á lækna. Þá tóku menn sýni 1949, af fólki hér á Akureyri og sendu hluta þeirra til Bandaríkjanna til greiningar. Það leiddi í ljós að þetta var ekki mæðuveiki. Þetta var eitthvað allt annað, sem ekki hefur enn verið upplýst,“ segir Óskar Þór Halldórsson, höfundur nýrrar bókar um akureyrarveikina. Sýni sem nýlega komu í leitirnar á Landspítalanum eru talin geta varpað ljósi á orsakir akureyrarveikinnar. Það gæti gagnast við rannsóknir á langvarandi eftirköstum kórónuveirunnar en mikil líkindi þykja með einkennum þessara sjúkdóma. Með nútímatækni og þekkingu verði vonandi hægt að varpa ljósi á orsakir akureyrarveikinnar Við eftirgrennslan hans kom í ljós að á Landspítalanum hafa varðveist nokkur sýni, sem varðveist hafa allt fram á þennan dag. Sýni sem lengi hefur verið leitað að. „Það er náttúrulega von okkar allra að með nútímatækni og þekkingu í læknisfræði þá getum við komist að því hvað var þarna á seyði. Það var allt reynt með þeirri þekkingu sem var á þeim tíma, fyrir þessum rúmlega 75 árum,“ segir Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir. Fundur sýnanna þykir mikilvægur fyrir rannsóknir á langvarandi eftirköstum covid Mikil líkindi þykja með sjúkdómseinkennum akureyrarveiki og langvarandi eftirköstum covid. Kristín segir það því mikilvægt, fyrir rannsóknir á þeim veikindum, ef tekst að upplýsa um ástæður akureyrarveikinnar. „Ég held að þetta sé einn liður í því púsli, já. Og akureyrarveikin, sem er svolítið fræg í útlöndum, var fyrsta lýsing á ME í heiminum í ritrýndu tímariti. Og long-Covid virðist falla að því.“ „Ég er ótrúlega glöð að þau séu komin í leitirnar“ Og hún væntir þess að vísindamenn víða um heim, sem lengi hafa sýnt akureyrarveikinni áhuga, komi nú til samtarfs við rannsóknir sem fram undan eru á sýnunum. „En ég bara fann þau ekki. Leitaði þó nokkuð, í nokkur ár, og ég er ótrúlega glöð að þau séu komin í leitirnar. Loksins!“