Ivan Nicolai Kaufmann, eigandi Vélfags, þvertekur fyrir að hafa keypt fyrirtækið til að losa fyrrverandi eiganda þess undan refsiaðgerðum. Hann er staddur hér á landi til þess að sýna fram á að hann tengist skuggaflota Rússa ekki og til að fá refsiaðgerðum aflétt. Staða fyrirtækisins er erfið og níu starfsmönnum var sagt upp í gær. Evrópusambandið hefur beitt um 2500 einstaklinga og fyrirtæki viðskiptaþvingunum, frá innrás Rússa í Úkraínu. Ísland og Noregur hafa einnig tekið þær upp. Vélfag, sem framleiðir fiskvinnsluvélar til fiskvinnslu, er eina íslenska fyrirtækið sem hefur orðið fyrir þessum þvingunum. Það er vegna tengsla við rússneska útgerðarfélagið Norebo, sem er á svörtum lista. Flutt frá föður til sonar og svo keypt af Kaufmann Norebo, í eigu rússneska auðjöfursins Vitaly Orlov, keypti um helmingshlut í Vélfagi 2022. Árið 2023 átti nýtt félag, Titania Trading Limited í eigu sonar Vitaly, Nikita Orlov, um áttatíu prósent í Vélfagi. Það ár færði Vitaly stærstan hluta evrópskrar starfsemi yfir á son sinn sem er norskur ríkisborgari. Nýr eigandi, Ivan Nicolai Kaufmann, athafnamaður búsettur í Sviss, kaupir svo Titania 16. maí. Fjórum dögum síðar tilkynnir ESB að Norebo verði beitt þvingunaraðgerðum, grunað um að stunda njósnir fyrir rússneska ríkið með skipum sínum. Bankinn telur ekki nægar sannanir fyrir að salan hafi verið raunveruleg Í júlíbyrjun taka norsk yfirvöld upp refsiaðgerðir ESB gegn Norebo og skömmu síðar tilkynnir Arion banki Vélfagi að fjármunir fyrirtækisins verði frystir vegna gruns um að Norebo væri raunverulegur eigandi Vélfags, og ekki hafi borist viðhlýtandi sannanir fyrir því að salan til Kaufmann hafi verið raunveruleg, með rofi á eigna- og stjórnunarlegum tengslum og yfirráðum, eins og það er orðað. Þekkir Orlov feðga en þverneitar fyrir að vera leppur fyrir þá En af hverju eru kaup Kaufmann talin til málamynda? Orlov hefur fært eignir frá því að refsiaðgerðirnar tóku gildi - og það eru þekkt tengsl á milli Kaufmann og Orlov feðga. „Ég þekki þá frá fyrri tíð, vissulega. Ég keypti af þeim fyrirtækið. En ef þú ert að spyrja hvort ég sé þeim samningsbundinn eða sé skráður eigandi fyrirtækisins fyrir þá eða meðlimir stjórnarinnar vinni fyrir þá, þá er svarið nei,“ segir Kaufmann. „Ég gerði utanríkisráðherra og Arion banka það alveg ljóst,“ segir Kaufmann. Starfaði í sjóð sem áður hét Vitaly Orlov and sons Þú segist þekkja til þeirra en hefur þú ekki líka unnið með þeim eða fyrir þá? „Ég var í stjórn fjárfestingasjóðs þar sem einn úr fjölskyldu þeirra hefði mögulega notið góðs af. Hann var einn af fleiri en áttatíu sem gátu notið góðs af og það voru einnig Íslendingar á þeim lista. Og ég hætti í stjórninni í febrúar 2022.“ segir hann. Sjóðurinn sem um ræðir heitir VOS Heritage Foundation en hét upphaflega Vitaly Orlov and sons. Og tímasetning kaupanna vekur upp spurningar. Gerir sér grein fyrir að tímasetning kaupanna sé grunsamleg „Þetta hljómar illa en ég vil leggja áherslu á að ég keypti fyrirtækið áður en kom til refsiaðgerða gegn Norebo eða Vitaly Orlov. Það skiptir ekki máli hvort ég keypti það þremur mánuðum áður eða þremur klukkustundum,“ segir hann. „Mér er auðvitað ljóst að þetta virðist grunsamlegt en þetta eru refsiaðgerðirnar. Hvorki Orlov feðgar eða ég eða einhver annar, gat haft nokkra stjórn á því.“ Viðræður um kaupin hafi hafist mun fyrr Kaufman heldur því fram að viðræður hafi hafist í águst árið áður samkomulag um verð ekki náðst. Þegar refsiaðgerðir fóru að bíta hafi hann getað samið betur. Fyrirtækið hefur fengið undanþágur til að greiða laun, opinber gjöld og fleira gegn því að uppfylla ströng skilyrði - og ráðuneytið þarf að samþykkja alla samninga sem fyrirtækið gerir. Segja Arion banka byggja ákvörðunina á óræðum grun Lögmenn Vélfags segja ákvörðun Arion banka einungis byggða á óræðum grun um að salan hafi ekki verið raunveruleg og að ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti. Kaufmann sé skráður raunverulegur eigandi hjá Skattinum - en ráðuneytið samþykki það ekki. Arion treyst til að meta tengslin við Norebo Ráðuneytið segist treysta Arion banka, sem segir Norebo hafa óbein eignar- eða stjórnaryfirráð yfir Vélfagi. Kaufmann hefur fengið bankanum og ráðuneytinu áreiðanleikamat, unnið af opinberu fyrirtæki innan ESB sem segir Kaufmann ekki tengdan rússneskum aðilum sem sæti þvingunum. Fréttastofa hefur séð niðurstöðu þess mats sem Kaufmann segir ekki tekið gilt. „Svo það sé á hreinu ætla ég ekki að selja fyrirtækið“ Staða fyrirtækisins sé mjög erfið. Níu starfsmönnum var sagt upp í gær og framkvæmdastjórinn sagði stöðu sinni lausri. Utanríkisráðuneytið hefur lagt það til að Vélfag verði selt og andvirði sölunnar fryst. „Svo það sé alveg á hreinu ætla ég ekki að selja fyrirtækið. Síðustu vikur hefur mér margoft verið sagt að selja það; seldu það Íslendingi og þá verður allt í lagi. Ég sel ekki fyrirtækið. Ég keypti það í góðri trú og löglega,“ segir Kaufmann. „Ég hef engin tengsl við rússneska skuggaflotann eða rússnesk skuggafyrirtæki eða vafasamar persónur. Mér finnst komið fram við mig af ósanngirni og ég læt fyrirtækið ekki fara í vaskinn. Ég sé möguleika í Vélfagi og ég hyggst fylgja þeim eftir,“ segir hann. Finnst svör frá banka og ráðuneyti fá og berast seint Fá svör sé að fá frá bankanum og ráðuneytinu - og þau berist seint. Þá hefur honum verið neitað um að borga gjöld og skuldir fyrirtækisins úr eigin vasa til að bæta stöðuna, sem og að taka sæti í stjórn. „Ekki ástand sem getur varað að eilífu“ Hann segir aðgerðirnar ekki einungis íþyngjandi - það að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hafi greint frá nafni Vélfags geri reksturinn erfiðari, því viðskiptavinir semji ekki við fyrirtæki í þessari stöðu. „Fyrr eða síðar þarf að taka ákvörðun. Þetta er ekki ástand sem getur varað að eilífu. Þegar ég kom hingað fyrir þremur vikum síðan var ég ákveðinn í að vera þar til þetta leysist og það er enn stefnan. Ég verð hérna þar til þetta leysist,“ segir Kaufmann. Eigandi Vélfags þvertekur fyrir að hafa keypt fyrirtækið til málamynda en viðurkennir að tímasetningin komi illa út. Vélfag sætir refsiaðgerðum vegna tengsla við rússneskt fyrirtæki sem talið er hluti af skuggaflota Rússa.