FH-ingar slógu til stórveislu í Kaplakrika í kvöld. Aron er borinn og barnfæddur FH-ingur og sleit þar barnskónum þar til atvinnumennskan tók við. Eftir glæstan feril með Kiel, Veszprem, Barcelona og Álaborg sneri hann heim og varð Íslandsmeistari með FH vorið 2024. Veszprem hóaði svo aftur í kappann á síðustu leiktíð og fóru skórnir svo á hilluna í vor. Ferill Arons á sér engin fordæmi í íslenskri handboltasögu. Hann vann Meistaradeildina þrisvar; tvisvar með Kiel og einu sinni með Barcelona. Hann varð 14 sinnum landsmeistari með liðunum fjórum sem hann lék með á ferlinum og 9 sinnum bikarmeistari. Landsleikirnir urðu 182 og mörkin 695. Hann er 10. markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi. Nánari umfjöllun um kveðjuleik Arons verður í íþróttafréttum RÚV kl. 19:25 á morgun, laugardag.