Fjórir nýir fagstjórar hafa verið ráðnir til Kvikmyndaskóla Íslands sem hefur fengið framtíðarhúsnæði í kvikmyndaveri Stúdíó Sýrlands. Í mars á þessu ári varð Kvikmyndaskóli Íslands gjaldþrota og tvísýnt var um framtíð hans. Rafmennt, fræðslusetur rafiðnaðarins, steig inn, keypti skólann og tók við rekstrinum. Haustönn Kvikmyndaskólans hefst þann 8. september og verður komandi skólavetur sá fyrsti á vegum Rafmenntar. Gjaldskrá skólans hefur verið uppfærð og skólagjöldin lækkuð um rúman helming. Þau voru áður 790 þúsund krónur en eru nú 390 þúsund krónur. Í sumar gerði Kvikmyndaskóli Íslands samning við mennta- og barnamálaráðuneytið um stuðning en skólinn hefur á ný fengið viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Hann er því aftur orðinn lánshæfur hjá Menntasjóði Námsmanna. Reynsluboltar úr íslenskri kvikmyndagerð Fjögur fagsvið Kvikmyndaskóla Íslands eru leiklist, leikstjórn og framleiðsla, skapandi tækni og handrit og leikstjórn. Gunnar Björn Guðmundsson fer fyrir fagsviðum leikstjórnar og framleiðslu og handrita og leikstjórnar, ásamt Hafsteini Gunnari Sigurðssyni. Báðir hafa þeir reynslu af handritsskrifum og kvikmyndaleikstjórn. Gunnar Björn gerði sem dæmi kvikmyndirnar Astrópíu, Gauragang og Ömmu Hófí. Hafsteinn hefur meðal annars leikstýrt kvikmyndunum Undir trénu, París norðursins og Northern Comfort en hann er einnig að baki sjónvarpsþáttunum Aftureldingu. Þorsteinn Bachmann, leikari, er nýr fagstjóri fagsviðs leiklistar. Þorstein þarf vart að kynna en hann hefur leikið í fjölda kvikmynda og þáttaraða, þar á meðal kvikmyndunum um hinar síðustu veiðiferðir, Djúpinu og Ljósbroti. Þá hefur hann leikið í þáttaröðum á borð við Dimmu og Kötlu og fjórðu seríu af bandarísku þáttaröðinni True Detective, sem kennd er við næturlandið. Jonathan Devaney er fagstjóri fagsviðs skapandi tækni en hann er jafnframt nýr yfirkennari Kvikmyndaskóla Íslands. Devaney hefur áratugareynslu af kvikmyndagerð og kom til að mynda að erlendu kvikmyndaverkefnunum Flags of our Fathers, Stardust, Journey to the Center of the Earth og Star Trek: Discovery sem voru með viðkomu hérlendis. „Þetta er nýr skóli byggður á gömlum og góðum grunni“ Í tilkynningu frá Kvikmyndaskóla Íslands segir að kvikmyndaver Stúdíó Sýrlands bjóði upp á mynd- og hljóðver, klippisvítur og hljóðvinnslurými. Þar hefur einnig verið settur upp bíósalur til að dýpka skilning nemenda á sjálfri upplifun kvikmyndaáhorfs. Gunnar Björn Guðmundsson, fagstjóri, segir nýtt húsnæði Kvikmyndaskólans vera til fyrirmyndar. „Aðstaðan hér í húsinu er einstaklega góð. Það er búið að vinna í allt sumar við að setja upp almennilegar stofur og aðstöðu fyrir alla nemendur af alveg topp, toppgæðum,“ segir Gunnar Björn í samtali við fréttastofu. Gunnar Björn segir umtalsverða lækkun skólagjalda stafa af uppfærðum útreikningum Rafmenntar á því hvert gjaldið yrði að vera. „Hún gengur ekki út á að það sé verið að minnka námið eða einfalda. Þetta bara reiknaðist þannig út að þetta sé tala sem nægi þeim. En það hefur alls ekki verið dregið úr gæðum námsins. Allir kennarar sem starfa hér við skólann eru starfandi atvinnumenn í kvikmyndabransanum.“ Þá segir Gunnar Björn að áfram verði kennt samkvæmt fyrri námskrá Kvikmyndaskóla Íslands. „Þetta er nýr skóli byggður á gömlum og góðum grunni. Það eru engar stórkostlegar breytingar í því.“